Íslenski boltinn

Hvorki leikmenn Fram né aðstoðarþjálfarinn skilja hvers vegna Ásmundur var rekinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ásmundur Arnarsson var látinn fara fram Fram.
Ásmundur Arnarsson var látinn fara fram Fram. vísir/eyþór
Fram vann 1-0 sigur á Gróttu í Inkasso-deildinni í fótbolta í gær en stigin þrjú voru nauðsynleg rétt til að lægja öldurnar eftir furðulegan brottrekstur þjálfarans Ásmundar Arnarssonar í vikunni.

Ásmundur var með Fram í fimmta sæti deildarinnar þegar að hann var rekinn í byrjun vikunnar en bæði hann og fleiri hafa lýst yfir undrun sinni á brottrekstrinum.

Ólafur Brynjólfsson, aðstoðarþjálfari Ásmundar, stýrði Fram í leiknum í gær og hann viðurkenndi fúslega eftir leikinn að hann var hreinlega ósammála stjórninni þegar kom að því að víkja Ásmundi úr starfi.

„Ég var ekki sammála henni [ákvörðuninni]. Það er satt. En svona er lífið sem þjálfari. Maður veit ekkert hvað gerist í þessu,“ sagði Ólafur við fótbolti.net eftir leikinn í gær.

Hann sagðist ekki vilja ræða það hvort hann myndi halda áfram með liðið. „Ég mun alltaf taka ákvörðun. Þetta kemur bara í ljós,“ sagði Ólafur.

Sigurpáll Melberg Pálsson, fyrirliði Fram, var alveg jafnhissa á brottrekstri Ásmundar og ræddi hann einnig í viðtali við fótbolti.net eftir leik.

„Það voru allir jafn gáttaðir á því og stuðningsmennirnir. Það verður að segjast eins og er. Það bjóst enginn við þessu. Svona er þetta stundum, stjórnin ræður þessu,“ sagði fyrirliðinn og bætti við: „Það voru allir, þar á meðal ég, mjög sáttir með hans störf. Hann gerði gott verk," sagði Sigurpáll Melberg Pálsson.




Tengdar fréttir

Fékk fyrirmæli um að tala illa um Bubalo

Ásmundur Arnarsson, fyrrverandi þjálfari Fram, segir að stjórn félagsins hafi sagt sér að tala illa um leikmann liðsins eftir leik gegn Fylki í síðustu umferð Inkasso-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×