Fótbolti

Sölvi Geir á leið aftur til Kína

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sölvi Geir í leik með íslenska landsliðinu.
Sölvi Geir í leik með íslenska landsliðinu. vísir/getty
Fótboltamaðurinn Sölvi Geir Ottesen er ekki á heimleið alveg strax en hann er á leiðinni aftur til Kína að spila í kínversku ofurdeildinni, samkvæmt heimildum Vísis.

Hann hefur verið á Íslandi undanfarnar vikur og meðal annars rætt við uppeldisfélag sitt Víking í Reykjavík og FH, samkvæmt heimildum Vísis, en hann ákvað að taka samningi sem honum bauðst í Kína.

„FH er spennandi kostur,“ sagði Sölvi Geir við Morgunblaðið á dögunum en hann æfði með FH í byrjun árs. Hafnafjarðarliðið var í leit að miðverði fyrir mótið og Heimir Guðjónsson sagði í viðtali við fotbolti.net á dögunum að allir hefðu áhuga á miðverðinum sterka.

Sölvi spilaði síðast með Buriram United í Taílandi en gerði þar starfslokasamning í síðasta mánuði. Þar áður var hann hjá Wuhan Zall í B-deildinni í Kína en hann fór fyrst þangað til að spila með Jiangsu Sainty árið 2015.

Sölvi Geir yfirgaf FC Kaupmannahöfn eftir góð ár þar árið 2013 til að spila í Rússlandi. Hann var fastamaður í landsliðshópnum um árabil og á að baki 28 landsleiki. Síðast spilaði hann fyrir íslenska landsliðið í janúar 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×