Erlent

Meintur glæpa-munkur framseldur frá Bandaríkjunum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Lúxuslíf munksins vakti talsverða athygli.
Lúxuslíf munksins vakti talsverða athygli. vísir/ap
Taílenski búddamunkurinn Wirapol Sukphol hefur verið framseldur frá Bandaríkjunum til Taílands þar sem hann þarf að svara til saka fyrir ákæru um kynferðisbrot og peningaþvætti. Hann var eftirlýstur af lögreglu þegar hann var staddur í Frakklandi árið 2013, en er sagður hafa flúið þaðan til Bandaríkjanna.

Sukphol, sem áður hét Nen Kham, komst í heimspressuna eftir að myndband birtist á Youtube þar sem hann sást ferðast um á einkaþotu með rándýra ferðatösku frá Louis Vuitton, en þetta lúxuslíf munksins vakti mikla athygli.

Þessi mikla athygli varð hins vegar til þess að fleira kom fram í dagsljósið, meðal annars það að eigur hans voru metnar á einn milljarð bata, sem samsvarar rúmlega þremur milljörðum íslenskra króna. Talið er að hann hafi aflað auranna með ólöglegum hætti og sætti hann í framhaldinu rannsókn vegna gruns um peningaþvætti og fíkniefnasmygl.

Sukphol er jafnframt grunaður um að hafa misnotað ólögráða stúlku. Hann  hefur nú verið framseldur til Taílands þar sem hann sætir ákæru fyrir nauðgun og peningaþvætti. Talið er að hann muni neita öllum ásökunum, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×