Innlent

Metþátttaka í Laugavegshlaupinu í dag

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Leiðin sem er hlaupin er 55 kílómetrar og fer göngufólk hana yfirleitt á fjórum dögum.
Leiðin sem er hlaupin er 55 kílómetrar og fer göngufólk hana yfirleitt á fjórum dögum. Marathon.is

Aldrei hafa fleiri tekið þátt í Laugavegshlaupinu en í ár. Tæplega fimm hundruð keppendur voru ræstir út í Landmannalaugum klukkan níu í morgun en leiðin er 55 kílómetrar.



Helmingur keppendanna 487 eru Íslendingar en hinn helmingurinn er erlendir gestir af 31 þjóðerni. Fjórðungur keppenda hefur tekið þátt áður en aðrir eru að taka þátt í fyrsta skipti.



Þetta er í 21. skipti sem hlaupið er haldið. Venjan er að ganga leiðina á fjórum dögum en methlauptími á leiðinni er þrjár klukkustundir og fimmtíu og níu mínútur í karlaflokki og fimm klukkustundir í kvennaflokki. Búist var við að fyrstu keppendur kæmu í mark í Þórsmörk á milli kl. 13 og 14.



Færri komast að en vilja

Veðrið var ágætt í Landmannalaugum þegar hljópið hófst að sögn Önnu Lilju Sigurðarsdóttur, upplýsingafulltrúa Íþróttabandalags Reykjavíkur.



„Þetta er orðið þannig að það komast færri að en vilja í þetta hlaup. Það opnaði skráningin í janúar og það var orðið uppselt í það mánuði seinna. Það hefur aldrei verið svona snemma uppselt í það,“ segir hún.



Yngsti hlauparinn að þessu sinni er 22 ára en þeir tveir elstu eru 68 ára gamlir.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×