Sport

NFL-stjarna týndi sextán milljón króna eyrnalokk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julio Jones brosti ekki mikið þegar hann uppgötvaði að eyrnalokkurinn væri týndur.
Julio Jones brosti ekki mikið þegar hann uppgötvaði að eyrnalokkurinn væri týndur. Vísir/Getty
Julio Jones er einn af bestu útherjum NFL-deildarinnar og hann fær vel borgað fyrir vinnu sína í ameríska fótboltanum.

Julio Jones spilar með Atlanta Falcons sem fór alla leið í Super Bowl á síðustu leiktíð.

Jones og félagar urðu að sætta sig við sárgrætilegt tap í Super Bowl í febrúar en á dögunum var hann kannski ekki minna svekktur þegar hann uppgötvaði það að hann hafði týnt eyrnalokknum sínum.

Julio Jones var þarna að leika sér sjóþotu á Lanier vatni og þegar hann kom í land þá var eyrnalokkurinn hvergi sjáanlegur. WXIA-TV í Atlanta sagði frá óhappinu.

Jones fékk mikið sjokk enda var þetta enginn venjulegur eyrnalokkur. Skarpgripasalinn hans sagði blaðamönnum WXIA-TV að lokkurinn væri 150 þúsund dollara virði sem jafngildir tæpum sextán milljónum í íslenskum krónum.

Jones var þó ekki tilbúinn að gefa lokkinn sinn upp á bátinn heldur kallaði hann til lið kafara sem reyndu að finna þennan sextán milljóna eyrnalokk. Það var hinsvegar nánast ómögulegt að finna eyrnalokkinn enda eins og að leita að nál í heystakki.

Jones mætti til æfinga hjá Atlanta Falcons í gærkvöldi. Þegar hann var spurður út í atvikið með eyrnalokkinn þá sagðist hann fyrst og fremst vera þakklátur að enginn skildi slasast þegar hann datt af sjóþotunni.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×