Íslenski boltinn

Fyrsti sigurinn hjá Hipólító kom í hús í Laugardalnum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framarar fagnar marki í sigrinum á Leikni í kvöld.
Framarar fagnar marki í sigrinum á Leikni í kvöld. Vísir/Andri Marinó
Portúgalinn Pedro Hipólító vann í kvöld sinn fyrsta sigur sem þjálfari Fram en hann kom ekki fyrr en í fimmtu tilraun. Tveir átján ára strákar skoruðu fyrir Framliðið í kvöld.

Fram vann þá 3-0 sigur á Leikni Reykjavík á Laugardalsvellinum og komst fyrir vikið upp í sjöunda sæti deildarinnar. Fram hoppað bæði upp fyrir Leikni R. og HK með þessum sigri í Laugardalnum.

Ivan Bubalo, Helgi Guðjónsson og Axel Freyr Harðarson skoruðu mörk Framliðsins í leiknum. Þþetta var áttunda mark Bubalo í deildinni. Markið skoraði Bubalo úr vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiksins.

Helgi Guðjónsson er fæddur árið 1999 og skoraði markið sitt á 55. mínútu en hann hafði komið inn á sem varamaður strax á 32. mínútu leiksins.

Axel Freyr Harðarson innsiglaði síðan sigurinn á 89. mínútu en hann kom inn á sem varamaður og er líka fæddur árið 1999 eins og Helgi.

Pedro Hipólító var ráðinn þjálfari Fram í byrjun júlí en liðið hafði fyrir þennan leik ekki enn náð í stig í Inkasso deildinni.

Fram hafði tapað fjórum fyrstu leikjum sínum undir stjórn Pedro Hipólító með minnsta mun, 0-1 á móti Keflavík, 1-2 á móti Þrótti, 2-3 á móti HK og 2-3 á móti Haukum.

Það er því óhætt að segja að Portúgalinn hafi fagnað langþráðum sigri í þessum leik í kvöld.

Leiknismenn hafa nú tapað tveimur leikjum í röð og eru komnir alla leið niður í níunda sæti eftir þetta stigalausu för sína á Þjóðarleikvanginn.

Andri Marinó Karlsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum á Laugardalsvelli í kvöld og tók þessar myndir hér fyrir neðan.

Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó



Fleiri fréttir

Sjá meira


×