Íslenski boltinn

Dramatískur sigur Þórs á Selfossi | Úrslitin úr leikjum dagsins í Inkasso deildinni

Elías Orri Njarðarson skrifar
Jeppe Hansen skoraði fyrir Keflavík í dag
Jeppe Hansen skoraði fyrir Keflavík í dag visir/anton brink
Tveimur leikjum er nú lokið í Inkasso deildinni í fótbolta.

Leiknir F.- Keflavík 2-4

Mörk Leiknis: Valdimar Ingi Jónsson ('4), Hilmar Freyr Bjartþórsson ('80)

Mörk Keflavíkur: Frans Elvarsson ('8), Adam Árni Róbertsson ('49), Fannar Orri Sævarsson ('84), Jeppe Hansen ('94)

Keflvíkingar gerðu sér góða ferð austur á land þegar að þeir mættu Leikni Fáskrúðsfirði í Fjarðabyggðarhöllinni í dag.

Heimamenn í Leikni komust snemma yfir í leiknum en Valdimar Ingi Jónsson kom þeim yfir á fjórðu mínútu leiksins. Frans Elvarsson svaraði svo strax á 8. mínútu fyrir gestina og jafnaði metin með snyrtilegu marki.

Staðan var jöfn í hálfleik 1-1, en strax á 49. mínútu kom Adam Árni Róbertsson Keflavík yfir eftir að hafa verið fyrstur að átta sig fyrir framan mark Leiknis eftir klafs í teignum.

Á 80. mínútu jöfnuðu heimamenn í Leikni metin eftir að Hilmar Freyr Bjartþórsson tók aukaspyrnu og skoraði snyrtilegt mark. Fjórum mínútum síðar skoraði Fannar Orri Sævarsson fyrir Keflavík og þeir komnir aftur með forystu.

Í uppbótartíma skoraði svo Jeppe Hansen fjórða mark Keflavíkur og flottur sigur Keflvíkinga í höfn.



Selfoss- Þór 2-3

Mörk Selfoss: James Mack ('43), Svavar Berg Jóhannsson ('73)

Mörk Þórs: Stipe Barac ('54), Gunnar Örvar Stefánsson ('78), Jóhann Helgi Hannesson ('93)

Selfyssingar fengu Þórsara í heimsókn á JÁVERK-völlinn á Selfossi. Leikurinn var jafn framan af en það var ekki fyrr en á 43. mínútu þegar James Mack kom heimamönnum yfir.

Selfyssingar fóru því með 1-0 forskot inn í seinni hálfleikinn. Stipe Barac jafnaði svo metin á 54. mínútu eftir að hafa verið einn og óvaldaður inn á teig Selfoss.

Svavar Berg Jóhannsson kom svo Selfyssingum yfir í leiknum eftir að Guðjón Orri Sigurjónsson spyrnti boltanum langt fram og klaufagangur í vörn Þórs gerði það að verkum að Svavar Berg fékk boltann skoppandi fyrir framan sig og kláraði færið vel.

Þórsarar svöruðu fyrir markið með sínu eigin þegar að Stipe Barac átti sendingu inn á Gunnar Örvar Stefánsson sem var einn á vítateig Selfoss og gerði vel í að stýra boltanum í netið.

Leikurinn stefndi í jafntefli en á 92. mínútu skoraði Jóhann Helgi Hannesson fyrir Þór eftir að Þórsarar geystu upp í skyndisókn eftir að hafa unnið boltann í eigin vítateig.

Dramatík á Selfossi og góð 3 stig til Þórsara niðurstaðan.



 

Úrslit og markaskorarar eru fengnir af www.fotbolti.net




Fleiri fréttir

Sjá meira


×