Íslenski boltinn

Nýr danskur framherji á að hjálpa Keflvíkingum að komst aftur upp í Pepsi-deildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lasse Rise í leik með Lyngby.
Lasse Rise í leik með Lyngby. Vísir/Getty
Keflvíkingar hafa styrkt sig fyrir komandi átök í Inkasso deildinni í fótbolta en þeir segja frá nýjum liðsmanni inn á heimasíðu sinni.

Lasse Rise hefur nefnilega samið við Keflavík um að spila með liðinu út tímabilið.

Rise er framherji og verður því við hlið landa síns Jeppe Hansen á lokakafla mótsins. Hans aðalstaða er að vera fremsti maður en hann getur þó einnig spilað á báðum vængjum.

Lasse Rise er 31 árs og var í unglingaliði Bröndby áður en hann fór yfir til BK Avarta. Hann hefur síðan spilað með félögum eins og Lyngby BK, Randers FC og Esbjerg FB.  

„Keflavík fagnar komu hans og er honum ætlað það hlutverk að styrkja liðið í þeirri baráttu sem framundan er í því að komast upp í Pepsideild,“ segir í fréttatilkynningu inn á heimasíðu Keflvíkinga.

Lasse Rise á að baki 92 leiki í dönsku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 12 mörk. Hann náði þó ekki að skora í átta leikjum með Lyngby BK á síðasta tímabili.

Keflavík er í öðru sæti Inkasso deildarinnar fyrir leik kvöldsins en Þróttarar geta þá náð öðru sætinu með því að taka stig á móti ÍR.

Keflvíkingar eiga síðan sinn leik í umferðinni inni á móti Leikni F sem fram fer á morgun og þar gæti Lasse Rise fengið sitt fyrsta tækifæri með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×