Ásdís Hjálmsdóttir endaði í 11. sæti í úrslitum í spjótkasti á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fer fram í London þessa dagana. Ásdís endaði einnig í 11. sæti í úrslitum á Ólympíuleikunum fyrir fimm árum. Keppnin fór þá fram á sama velli, Lundúnaleikvanginum, þar sem Ásdís virðist kunna afar vel við sig.
Ásdís tryggði sér sæti í úrslitunum með því að kasta 63,06 metra í undanúrslitunum á sunnudaginn. Það var níunda besta kastið í undanúrslitunum.
Ásdís byrjaði á því að kasta 57,38 metra og var í 10. sæti eftir 1. umferðina. Flestir keppendurnir gáfu í í 2. umferðinni og köstuðu lengra. Það gerði Ásdís einnig en annað kast hennar var afar gott, 60,16 metrar. Það kom Ármenningnum upp í 9. sætið, einu sæti frá því að komast í átta kvenna úrslit.
Það var allt undir í síðasta kasti Ásdísar. Þar gerði hún ógilt og möguleikinn á að komast í átta kvenna úrslit var því úr sögunni.
Þetta er þriðji besti árangur Ásdísar á stórmóti. Hún endaði í 8. sæti á EM í Amsterdam í fyrra og í 10. sæti á EM í Barcelona 2010. Sumarið hefur verið afar gott hjá Ásdísi. Hún vann gull á Smáþjóðleikunum og bætti svo Íslandsmetið sitt í síðasta mánuði.
Sport