Fótbolti

Hannes fékk á sig jöfnunarmark í seinni hálfleik og biðin lengist enn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson fær á sig skot í leiknum í kvöld.
Hannes Þór Halldórsson fær á sig skot í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Landsliðsmarkverðinum Hannesi Þór Halldórssyni tókst ekki að halda hreinu í kvöld og tryggja sínu félagi sinn fyrsta sigur í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Lærisveinar Ólafs H. Kristjánssonar í Randers urðu að sætta sig við 1-1 jafntefli á heimavelli á móti Silkeborg.

Randers er því enn án sigurs eftir sex fyrstu umferðirnar en liðið hefur þó náð í stig í síðustu tveimur leikjum sínum.

Þessi tvö stig duga liðinu þó ekki til að sleppa úr botnsæti dönsku úrvalsdeildarinnar en með sigri hefði liðið komist upp í ellefta sætið.

Marcus Mølvadgaard kom Randers í 1-0 á 38. mínútu og þannig var staðan í 27 mínútur eða þar til að Robert Skov jafnaði metin fyrir gestina í Silkeborg.  

Hannes Þór Halldórsson hélt hreinu í markalausu jafntefli við Bröndby í leiknum á undan og hafði einnig haldið hreinu í markalausu jafntefli við SönderjyskE í fyrstu umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×