Skoðun

Um uppreist æru

Gunnar Árnason skrifar
Þegar menn ganga erinda fyrir þá sem gerst hafa sekir um hræðilegustu glæpi gagnvart varnarlausum, er þeim ekki endilega annt um brotamanninn. Og það er ekki endilega víst að þeim sem greiða götu brotamannsins sé illa við fórnarlömb hans. Fleira kemur til.

Góður kunningi minn úr grunnskóla átti talsvert safn af vínylplötum. Föður hans, sem lagði stund á viðskipti og var athafnamaður með góð sambönd, fannst koma til álita að sonurinn seldi aðgengi að safninu og yrði sér úti um aur. Það varð til þess að kunningi minn byrjaði að halda skipulagða skrá um plötusafnið. Föður hans gekk gott eitt til og það sama má segja um kunningjann, hann er góður maður og hefur látið gott af sér leiða. Umrætt utanumhald kunningja míns varð til þess að aðgengi okkar hinna að plötusafninu varð betra og ýtti undir áhuga á að skoða málið nánar, og gott ef hann seldi ekki eina og eina vínylplötu til vel valinna og færði til bókar samkvæmt skránni góðu.

Umrætt rifjaðist upp fyrir greinarhöfundi þegar það bar til tíðinda fyrir skemmstu að dæmdur maður fékk uppreist æru. Margir vel mæltir og ráðsettir aðilar greiddu götuna varðandi fyrrgreint málefni, og gengu helst til vasklega fram að mati margra, sé tekið mið af umfangi og eðli brotanna, en það kann að vera á misskilningi byggt. Og ekki má gera lítið úr því að eiga afturkvæmt í þjóðfélagið að lokinni afplánun refsingar. Nokkur leynd hvílir yfir umræddu ferli enn sem komið er, sem er vissulega bagalegt. Greinarhöfundur telur víst að gamli kunninginn eigi ekkert sameiginlegt með þeim er í hlut átti, nema hvatann til að halda skrá um tiltekin atriði og auðvelda aðgengi sitt og yfirsýn yfir efnið. Sumt er bersýnilega óþarft að halda skrá um.

Í sumum tilfellum blasir við að hvatar skipulagðrar starfsemi og sölumennsku búa að baki skráningu upplýsinga og skuggahliðar sölumennskunnar geta tekið á sig óhugnanlegar myndir. Plató sagði að gjaldið sem góðir menn greiða fyrir skeytingarleysi sitt sé að vera stjórnað af vondum mönnum, og það má til sanns vegar færa. Sameinumst til góðra verka og tökum höndum saman um að hafna spillingu í okkar þjóðfélagi. Hlúa þarf að þeim sem um sárt eiga að binda og víst er að margur þarf að bæta ráð sitt.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×