Viðskipti innlent

Arðsemi eigin fjár hjá Nasdaq var yfir 50 prósent í fyrra

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hagnaður Nasdaq verðbréfamiðstöðvarinnar nam 307,9 milljónum króna í fyrra og dróst saman um tuttugu milljónir á milli ára.
Hagnaður Nasdaq verðbréfamiðstöðvarinnar nam 307,9 milljónum króna í fyrra og dróst saman um tuttugu milljónir á milli ára. Vísir/GVA
Hagnaður Nasdaq verðbréfamiðstöðvarinnar nam 307,9 milljónum króna í fyrra og dróst saman um tuttugu milljónir á milli ára, samkvæmt nýjum ársreikningi félagsins. Var arðsemi eigin fjár 51,8 prósent á árinu borið saman við 49,2 prósent árið 2015.

Samkvæmt ársreikningi félagsins, sem er í eigu Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþings sem er aftur í eigu bandarísku kauphallarsamstæðunnar NasdaqOMX, voru tekjur þess 691,6 milljónir króna í fyrra. Á móti námu rekstrargjöldin 346 milljónum króna og jukust þau um þrjátíu milljónir á milli ára.

Stjórn félagsins hefur ákveðið að greiða út 310 milljóna króna arð til eigenda. Eigið fé félagsins var 594,6 milljónir króna í lok síðasta árs og heildareignir rúmlega 712 milljónir, en þær drógust saman um hátt í 200 milljónir á milli ára.

Eins og kunnugt er vinna fjárfestar nú að stofnun Verðbréfamiðstöðvarinnar sem mun binda enda á einokun Nasdaq á markaði með skráningu verðbréfa hér á landi. Gert er ráð fyrir að Verðbréfamiðstöðin taki til starfa síðar á árinu.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×