Skoðun

Leiðtogakjör í Reykjavík

Árni Árnason skrifar
Á fundi stjórnar Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík í síðustu viku, var samþykkt tillaga þess efnis, að farin verði blönduð leið við val á framboðslista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gærmorgun  lagði ég fram tillöguna sem felur í sér leiðtogakjör um fyrsta sæti framboðslistans. Einstaka sjálfstæðismenn í Reykjavík virðast telja þessa tillögu ólýðræðislega. Það er misskilningur. Tillagan felur í sér að allir sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa kosningarétt í leiðtogakjörinu. Uppstillinganefnd kjörin af fulltrúaráðsmeðlimum mun hins vegar raða í önnur sæti listans.

Það eru þrjár meginástæður þess að ég tel þessa leið besta fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík:

Í fyrsta lagi hefur Sjálfstæðisflokkurinn átt erfitt uppdráttar í borginni síðustu misserin. Þegar kannanir eru skoðaðar er augljóst að flokkurinn á æ minni samhljóm með konum og yngri kjósendum. Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar tefldum við fram þremur karlmönnum í efstu sætunum sem skýrir að stóru leyti áhugaleysi þessara tveggja hópa.  Nái tillagan mín fram að ganga getum við komið í veg fyrir skertan hlut kvenna og ungs fólks í stjórnmálaþátttöku innan Sjálfstæðisflokksins.

Í öðru lagi er staðan í borginni með þeim hætti að úthverfi hennar upplifa sig í æ minni tengslum við stjórnsýslu og þjónustustig borgarinnar. Stór hluti borgarfulltrúa sem nú eiga sæti í borgarstjórn takmarkast við miðborgina. Reykjavík er stórborg og hver íbúi er mikilvægur í heildar samhenginu og því ber að tefla fram framboðslista sem tekur tillit til kyns, aldurs og búsetu innan borgarmarkanna til að endurspegla flóru borgarinnar.

Í þriðja lagi þarf flokkurinn að sýna þor og áræði til að fara nýjar leiðir og draga lærdóm af deyfð og kosningaósigrum í Reykjavík á undanförnum árum.  Vörður hélt fjölmennt, gróskumikið og afar vel heppnað Reykjavíkurþing núna í vor þar sem grasrót flokksins í Reykjavík náði víðtækri samstöðu um meginstefnumál flokksins í borgarmálum. Sú framtíðarsýn sem þar var mótuð er alfarið og augljóslega í anda Sjálfstæðisstefnunnar. Sá einhugur og styrkleiki sem þar ríkti styrkir mig í þeirri trú að blandaða leiðin muni skila frambærilegum framboðslista sem mun gera Sjálfstæðisflokkinn að raunverulegum valkosti fyrir kjósendur og eiga samleið með þeim í næstu kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn, einn og sér, hélt meirihluta í bæjar- og borgarstjórn Reykjavíkur frá stofnun flokksins til 1978 og aftur 1982 til 1994. Hann hefur mest náð 10 borgarfulltrúum en hefur nú aðeins fjóra. Sagan sýnir okkur því að stefna Sjálfstæðisflokksins á fullt erindi til kjósenda sem eru orðnir langþreyttir á forsjárhyggju og aðgerðarleysi vinstri flokkanna. Til að ná vopnum okkar og fyrri styrk, þurfum við einungis að sýna vilja, kjark og samstöðu á fulltrúaráðsfundinum, styðja tillöguna og stuðla þar með að farsælum framboðslista fyrir  komandi borgarstjórnarkosningar.

Árni Árnason, stjórnarmaður í Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélagnna í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×