Íslenski boltinn

Kristján: Langar alltaf að komast aftur í bikarúrslitin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV. Vísir
Kristján Guðmundsson hefur náð góðum árangri í bikarkeppninni á þjálfaraferlinum. Árið 2006 gerði hann Keflavík að bikarmeistara eftir 2-0 sigur á KR í úrslitaleiknum og hann fór aftur með Keflavík í úrslitaleikinn árið 2014, en þá komu KR-ingar fram hefndum.

Kristján er í dag þjálfari ÍBV sem mætir FH í úrslitaleik Borgunarbikars karla á morgun. Leikurinn hefst klukkan 16.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Það er erfitt að segja hver sé lykillinn að baki góðs árangurs í bikarnum. Þetta eru leikir þar sem bara ein úrslit duga og það er sigur. Það verður að koma leikmönnum í skilning um það,“ sagði Kristján í samtali við Vísi.

„Ég hef gríðarlega gaman að bikarnum. Eftir að maður upplifði þetta í fyrsta sinn þá langar manni alltaf að komast aftur í úrslitaleikinn.“

Ítrekaður spurður um þjóðhátíð

Eyjamenn hafa stundum gefið eftir síðari hluta sumars undanfarin ár, sérstaklega eftir verslunarmannahelgina og þjóðhátíð í Eyjum. En Kristján óttast ekki að það gerist nú.

„Það hafa allir talað um þjóðhátíðarhelgina við mig, meira og minna allt tímabilið. Hvernig ég ætlaði að vinna úr henni en ég held að það hafi tekist mjög vel,“ sagði Kristján en ÍBV gerði á þriðjudag jafntefli við Víking í Fossvoginum.

„Það var svolítið þreytt að ferðast í þann leik og sást örlítið á liðinu. En við tókum stig og það var það sem við þurftum á að halda, að minnsta kosti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×