Fótbolti

Jón Daði: Var verulega æstur í að byrja

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jón Daði í baráttunni í kvöld..
Jón Daði í baráttunni í kvöld.. Vísir/Anton Brink
„Ég ætla að vera alveg hreinskilinn með það að ég var verulega æstur í að byrja. Ég gat ekki beðið og þegar ég heyrði í gær að ég væri að fara að byrja þá varð ég virkilega spenntur og var það í allan dag. Það er frábært að vera kominn aftur í byrjunarliðið og hvað þá í sigurleik,“ sagði Jón Daði Böðvarsson framherji Íslands í samtali við Vísi eftir sigurinn á Úkraínu í kvöld. Jón Daði byrjaði á bekknum gegn Finnum en kom inn í byrjunarliðið í dag.

Eftir markalausan fyrri hálfleik, þar sem íslenska liðið hafði átt í nokkrum vandræðum sóknarlega, fór allt á flug í síðari hálfleik sem var magnaður af hálfu strákanna okkar.

„Við fórum inn í hálfleik og vissum að við værum enn inni í leiknum. Við vorum staðráðnir í því að pressa enn meira á þá í síðari hálfleik. Við náum svo þessu marki og þurfum þá að passa okkur á að vera ekki of varkárir og detta of langt niður heldur pressa á þá og það skilaði öðru marki.“

„1-0 er aldrei nægjanleg forysta. Að ná öðru markinu tók pressuna af okkur og svo náðum við að stjórna leiknum alveg til loka,“ bætti Jón Daði við.

Jón Daði átti fínan leik og var gríðarlega vinnusamur í fremstu víglínu. Hann lét varnarmenn Úkraínu aldrei í friði og hélt uppi stöðugri pressu. Hann var sáttur með eigin frammistöðu.

„Ég er nokkuð sáttur. Það var mikilvægt að vera grimmur og pressa vel á varnarmennina þeirra og gefa miðjumönnunum okkar tækifæri til að anda aðeins. Gylfi var líka öflugur í pressunni með mér þarna frammi og hann hleypur auðvitað endalaust ásamt því að skora svo fyrir okkur.“

Jón Daði var tekinn af velli á 67.mínútu en hefði þó alveg verið til í að spila lengur.

„Ég sagði nú við Heimi að ég gæti alveg spilað lengur. Það var kannski skynsamlegt að taka mig út og fá ferska fætur inn,“ sagði Jón Daði brosandi.

Riðill Íslands er nú galopinn eftir að Tyrkir unnu sigur á Króatíu. Jón Daði sagði spennandi leiki framundan.

„Það er frábært að koma til baka og sigra eftir dapran leik í Finnlandi. Það heldur þessu opnu enn og þetta er virkilega öflugur riðill, mjög spennandi og það eru bara úrslitaleikir eftir,“ sagði Selfyssingurinn knái, Jón Daði Böðvarsson að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×