Viðskipti innlent

Kaupþing vill svör um afskriftir Arion banka fyrir hlutafjárútboð

Haraldur Guðmundsson skrifar
Upplýst verður um niðurfærslu á útlánum Arion banka til United Silicon í Helguvík í síðasta lagi fyrir uppgjör bankans fyrir þriðja ársfjórðung 2017.
Upplýst verður um niðurfærslu á útlánum Arion banka til United Silicon í Helguvík í síðasta lagi fyrir uppgjör bankans fyrir þriðja ársfjórðung 2017. Vísir/Vilhelm
Stjórnendur Kaupþings vilja samkvæmt heimildum Markaðarins fá svör um hversu mikið Arion banki þarf að afskrifa af átta milljarða króna lánveitingu sinni til kísilmálmverksmiðju United Silicon áður en ráðist verður í fyrirhugað hlutafjárútboð á 58 prósenta hlut í bankanum. Lánveitingin nemur 3,6 prósentum af eigin fé bankans.

Stefnt er að hlutafjárútboði Arion banka, þar sem Kaupþing mun bjóða allt að 58 prósenta hlut sinn til sölu, í október eða nóvember, eins og Markaðurinn greindi frá um miðjan ágúst. United Silicon hefur aftur á móti fengið áframhaldandi greiðslustöðvun til 4. desember. Arion banki, stærsti lánveitandi kísilversins, er með um átta milljarða útistandandi við félagið í lánsloforðum og ábyrgðum. Þar að auki hefur hann fært niður 16,3 prósenta hlut sinn í verksmiðjunni að fullu sem var bókfærður á rétt tæpan einn milljarð króna.

Arion banki segir í skriflegu svari við fyrirspurn Markaðarins að tvær skýringar séu á því að ekki var gerð varúðarniðurfærsla vegna lánveitinga til United Silicon í bókum bankans þegar árshlutareikningur hans var kynntur 23. ágúst. Annars vegar hafi sá atburður sem fyrst og fremst leiddi til þess að verksmiðjan lenti í greiðsluerfiðleikum, það er niðurstaða gerðardóms um að kísilverið þurfi að greiða ÍAV rúman milljarð króna vegna vangreiddra reikninga, ekki legið fyrir fyrr en eftir lok reikningsskiladags, 30. júní, eða nánar tiltekið 26. júlí. Hins vegar hafi verið horft til þeirrar miklu óvissu sem ríkti, og ríki í raun enn, varðandi framtíð verksmiðjunnar. Bankinn hafi því talið eðlilegra að gefa upp heildaráhættu sína gagnvart félaginu og upplýsa síðar um afstöðu til frekari varúðarniðurfærslna eftir því hvernig málið þróast.

Varðandi það hvort bankinn ætli að klára slíka varúðarniðurfærslu fyrir hlutafjárútboð og skráningu sem stefnt er að síðar á árinu, segir í svari Arion:

„Það er rétt að þegar kemur að sölumálum bankans þá er hlutafjárútboð og skráning einn af þeim kostum sem í skoðun eru. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun að svo stöddu. Arion banki hefur, frá því gerðardómur féll í máli ÍAV í lok júlí og United Silicon sótti um greiðslustöðvun, unnið að því að afla gagna og upplýsinga til að meta mögulega niðurfærsluþörf vegna útlána til félagsins. Sú vinna er ágætlega á veg komin og mun mat bankans liggja fyrir á næstu vikum. Upplýst verður um niðurstöðuna í síðasta lagi í uppgjöri bankans fyrir þriðja ársfjórðung.“

Arion var alltumlykjandi í fjármögnun verksmiðjunnar sem bankinn hóf að leiða árið 2014 og sá um útgáfu skuldabréfa vegna framkvæmdarinnar á innlendum markaði. Samkvæmt árshlutareikningnum fyrir fyrstu sex mánuði ársins töldu stjórnendur bankans að um tiltölulega áhættulitla fjárfestingu væri að ræða þar sem öll leyfi hefðu verið til staðar, eftirspurn og markaðsverð kísilmálmsins gott, tæknin margreynd, stjórnvöld og Reykjanesbær sammála um að framkvæmdin væri jákvæð og að henni hefðu komið innlendir og erlendir sérfræðingar og fjárfestar. Jafnframt hefði legið fyrir að reynsla af kísilverum væri almennt góð. Þremur árum síðar er staðan sú að umfang eftirlits Umhverfisstofnunar með verksmiðjunni er fordæmalaust og ítrekuð mengunaróhöpp og önnur vandamál hafa leitt til þess að reksturinn hefur verið stöðvaður.

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjáls lífeyrissjóðsins.
Þrír lífeyrissjóðir í stýringu hjá bankanum fjárfestu í verksmiðjunni í Helguvík fyrir alls 1.375 milljónir króna. Þar er um að ræða Frjálsa lífeyrissjóðinn, Eftirlaunasjóð félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) og Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ). Starfsfólk Arion gegnir stjórnunarstöðum í þeim öllum og eru skrifstofur sjóðanna í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Borgartúni.  

90 prósenta varúðarniðurfærsla Frjálsa

Frjálsi á stærstu fjárfestingu íslenskra lífeyrissjóða í verkefninu eða sem nemur 1.178 milljónum króna eða rétt rúmu hálfu prósenti af heildareignum hans. Fjárfestingin skiptist jafnt á milli skuldabréfa og hlutabréfa í kísilverinu og voru viðskiptin öll framkvæmd eftir ráðgjöf Arion banka. Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Markaðarins að búið sé að ráðast í 90 prósenta varúðarniðurfærslu á skuldabréfum og hlutabréfum sjóðsins í United.

„Um er að ræða varúðarniðurfærslu en algjörlega óvíst er hve mikið af fjárfestingunni tapast og upplýsingar um það liggja ekki fyrir að svo stöddu,“ segir Arnaldur.

Heildarfjárfesting EFÍA í Helguvík nemur 112,9 milljónum króna eða 0,34 prósentum af heildareignum sjóðsins. Stjórn hans samþykkti árið 2014 að ráðast í fjárfestinguna að undangenginni ítarlegri greiningu sérfræðinga eignastýringar Arion banka. Fjárfest var í skuldabréfum sem báru tíu prósenta vexti og voru vaxtakjör talin góð að teknu tilliti til áhættu. EFÍA tók svo þátt í hlutafjáraukningum verksmiðjunnar, aftur að lokinni ítarlegri greiningu sérfræðinga bankans, svo koma mætti kísilverinu í starfshæft ástand

„EFÍA gerði varúðarniðurfærslu á heildareign sinni í United Silicon. Varúðarniðurfærslan nam 90 prósentum en á þessu stigi liggur ekki fyrir hvernig mál munu þróast og því alls óvíst hver lokaniðurstaða verður,“ segir Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri EFÍA.

LSBÍ, áður Eftirlaunasjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, fjárfesti í kísilverinu fyrir 79 milljónir króna eða sem nemur 0,35 prósentum af heildareignum sjóðsins. Ólíkt hinum tveimur keypti sjóðurinn ekki hlutafé heldur einungis skuldabréf , en hefur einnig gert varúðarniðurfærslu í bókum sínum.

Að lokum hafa stjórnendur Festu lífeyrissjóðs í Reykjanesbæ fært niður 3,5 prósenta eignarhlut sjóðsins og fjárfestingu, að samtals 875 milljónir króna, sem var bæði í formi hlutafjár og skuldabréfa. Nemur hún um 0,7 prósentum af heildareignum Festu. Sjóðurinn keypti skuldabréf síðla árs 2014 þegar arðsemi fjárfestingarinnar var metin góð af sérfræðingum Arion og tók síðar þátt í hlutafjáraukningum.

„Félagið er í greiðslustöðvun og það er aðalkröfuhafinn eða Arion banki sem stýrir því ferli og við erum því í biðstöðu. Við færðum varúðarniðurfærslu á fjárfestingu okkar í verkefninu og það er eðlilegt við þessar aðstæður,“ segir Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×