Viðskipti innlent

Gréta María ó­vænt hætt hjá Prís

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gréta María Grétarsdóttir er hætt sem framkvæmdastjóri Prís.
Gréta María Grétarsdóttir er hætt sem framkvæmdastjóri Prís. Vísir/vilhelm

Gréta María Grétarsdóttir er hætt störfum sem framkvæmdastjóri Prís. Þetta staðfestir hún við Vísi. Hún hefur verið framkvæmdastjóri lágvöruverslunarinnar síðan hún opnaði dyr sínar í ágúst í fyrra en var þar á undan forstjóri Heimkaupa.

Gréta María vildi ekki tjá sig nánar um tímamótin sem hún segir að hafi borið upp á mánudaginn. Í nýrri mælingu verðlagseftirlits ASÍ mældist verðlag í Prís lægst á átta algengum jólavörum.

Gréta María hefur verið áberandi í viðskiptalífinu undanfarin ár. Hún er menntaður véla- og iðnaðarverkfræðingur, var í bankageiranum til 2016 þegar hún tók við starfi framkvæmdastjóra Krónunnar. Hún gegndi starfinu í fjögur ár en sagði óvænt upp starfi sínu þar árið 2020 vegna framgöngu Festismanna í hlutabótaumræðunni. Festi þáði bætur frá ríkinu þrátt fyrir að sjá fram á milljarða króna hagnað það árið.

Gréta réð sig í framhaldinu til sjávarútvegsfyrirtækisins Brims og fór svo í ferðaþjónustuna með Arctic Adventures. Hún réð sig svo til Heimkaupa áður en hún settist í brúna hjá Prís.

Ekki náðist í Auði Daníelsdóttur forstjóra Dranga. Þá náðist heldur ekki í Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformann Skeljar, stærsta eiganda Dranga sem á Prís.

Rætt var við Grétu Maríu í Íslandi í dag þegar hún tók við starfi framkvæmdastjóra Prís í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×