Viðskipti innlent

Vill 300 milljónir frá Virðingu vegna ófullnægjandi ráðgjafar

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
ET Sjón var einn þriggja hluthafa eignarhaldsfélagsins Þorgerðar sem seldi 45 prósenta hlut sinn í Ölgerðinni síðasta haust.
ET Sjón var einn þriggja hluthafa eignarhaldsfélagsins Þorgerðar sem seldi 45 prósenta hlut sinn í Ölgerðinni síðasta haust.
Félagið ET Sjón ehf., í eigu Eiríks Ingvars Þorgeirssonar, krefst þess að fá greiddar liðlega 300 milljónir króna í skaðabætur vegna meintrar ófullnægjandi ráðgjafar af hálfu Auðar Capital, sem síðar sameinaðist verðbréfafyrirtækinu Virðingu. Hefur félagið höfðað mál á hendur Virðingu, en aðalmeðferð fer fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun næsta árs.

ET Sjón er einn þriggja hluthafa eignarhaldsfélagsins Þorgerðar sem seldi 45 prósenta hlut sinn í Ölgerðinni síðasta haust. Félagið fór fram á að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu legði lögbann á söluna, en því var hafnað. Skömmu síðar var tilkynnt um sölu á 69 prósenta hlut í Ölgerðinni.

Félagið Þorgerður var stofnað í október 2010 utan um kaup á hlut í Ölgerðinni. Fjárfestingarsjóðurinn Auður 1, í stýringu Auðar Capital, fór fyrir kaupendahópnum og á meirihluta hlutafjár í Þorgerði. ET Sjón á tæplega 30 prósenta hlut í félaginu.

Samkvæmt heimildum Markaðarins tengist óánægja Eiríks með ráðgjöf Auðar Capital því að hann hafi þurft að bera kostnað vegna rúmlega milljarðs króna endurálagningar ríkisskattstjóra á Ölgerðina árið 2013 vegna öfugs samruna félagsins frá árinu 2007.

Virðing telur málssóknina með öllu tilhæfulausa og hefur krafist sýknu.

Fréttin birtisti fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×