Skoðun

Bara Vinstri, ekki Græn

Þórarinn Halldór Óðinsson skrifar
Það var athyglisvert að fylgjast með framgöngu Lilju Rafneyjar þingmanns Vinstri Grænna á borgarafundi sem haldinn var í Ísafjarðarbæ á dögunum undir yfirskriftinni „fólk í fyrirrúmi“. Þar tók hún m.a. til umræðu að leyfa skyldi eldi á frjóum norskum laxi í Ísafjarðardjúpi hið fyrsta og að náttúran skyldi fá að njóta vafans.

Samt veit þingmaðurinn að sá vafi leyfir ekki laxeldið, þar sem fyrir liggur áhættumat Hafrannsóknarstofnar. Þar er varað við að slíkt eldi muni vafalaust stefna villtum laxastofnum í ám á svæðinu í hættu.

Þrátt fyrir þetta krafðist þingmaðurinn þess að leyfi til laxeldis yrði veitt hið snarasta og virtist þarna alveg hafa gleymt pólitískum uppruna sínum. Það er liðin tíð að stjórnmálamenn í atkvæðaleit geti hagað sér eins og umskiptingar eftir því við hverja þeir tala hverju sinni. Það var því óheppilegt fyrir þingmanninn að fundinum var streymt í beinni útsendingu og því ómar krafa hennar um frjóan lax í sjókvíum um allt Norðvesturkjördæmi.

Því ekki má gleyma að aðrir hagsmunahópar búa í kjördæminu. Þar er að finna verðmætustu laxveiðiár á Íslandi og atvinnuhagsmuni þeim tengda sem þingmaðurinn virðist nú engu skeyta um. VG hefur hingað til gefið sig út fyrir að vera sá stjórnmálaflokkur sem stendur næst náttúrvernd í íslenskum stjórnmálum. Það á bersýnilega ekki lengur við, allavega ekki í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×