Innlent

Fundu sögulegt magn af amfetamínbasa í Norrænu

Ingvar Þór Björnsson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Verulegt magn af amfetamínbasa fannst í bifreið um borð í Norrænu fyrr í þessum mánuði en úr magninu er hægt að framleiða vel á annað hundrað kíló af amfetamíndufti. Tveir karlmenn eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Tollverðir fundu amfetamínbasa sem var falinn í bifreið sem kom með Norrænu til Seyðisfjarðar þann 3. október síðastliðinn. Grímur Grímsson hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hann vildi þó ekki gefa upp nákvæmt magn en samkvæmt heimildum fréttastofu er um að ræða rúmlega 11 lítra af basanum.

Amfetamínbasi er fljótandi amfetamín sem notað er til að framleiða amfetamínduft. Styrkleiki amfetamíns sem dreift er hér á markaði er að meðaltali 5,8 prósent samkvæmt rannsóknum sem hafa verið gerðar hér á landi. Sé miðað við þennan styrkleika er að öllum líkindum hægt að nota 11 lítra af basa til að framleiða um 150 kíló af amfetamíndufti.

Aðeins einu sinni verið lagt hald á meira magn af amfetamínbasa

Eftir því sem næst verður komist hefur aðeins einu sinni áður verið lagt hald á meira magn af amfetamínbasa en það var árið 2010 þegar tvær konur smygluðu tæplega 20 lítrum til landsins eftir sömu leið. Það er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, í samvinnu við lögregluna á Austurlandi, sem vinnur nú að rannsókn málsins.

Ökumaður bílsins var erlendur karlmaður en með honum í för var annar karlmaður frá sama landi. Báðir eru þeir á sextugsaldri.

Mennirnir voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald í tvær vikur. Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn rann út í gær og voru þeir færðir fyrir dómara og úrskurðaðir í gæsluvarðhald í 10 daga til viðbótar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×