Fótbolti

Þorir einhver þýsk nokkuð í þessar á morgun?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Fésbókarsíða KSÍ
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er á fullu út í Þýskalandi í undirbúningi sínum fyrir mikilvægan leik á móti heimakonum í undankeppni HM 2019.

Stelpurnar æfðu í dag á keppnisvellinum í Wiesbaden sem ber nafnið Brita-Arena og tekur tæplega þrettán þúsund í sæti.

Á æfingunni í dag fór fram keppni á milli þeirra ungu og gömlu og höfðu þær gömlu betur samkvæmt fésbókarfærslu á síðu Knattspyrnusamband Íslands.

Þær gömlu stilltu sér upp á mynd eftir leikinn og það má alveg sýna þeim þýsku þessa mynd fyrir leikinn á morgun. Ég er ekki viss um að þær þýsku þori nokkuð í okkar stelpur eftir að hafa séð þær í þessum ham.

Í gamla liðinu á æfingunni voru þær Guðbjörg Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Rakel Hönnudóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Sandra Sigurðardóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir og Sif Atladóttir.

Frábær mynd af frábærum stelpum.

Leikur Íslands og Þýskalands hefst klukkan 14.00 að íslenskum tíma á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×