Fótbolti

Heimir er staddur í Þórshöfn og opinn fyrir því að taka við HB í Færeyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. Vísir/Ernir
Heimir Guðjónsson, fráfarandi þjálfari FH, er eins og áður kom fram á Vísi í dag, í viðræðum við færeyska knattspyrnuliðið HB.

Í samtali við fréttastofu 365 í dag sagðist hann vera opinn fyrir því að taka við færeyska liðinu.

Heimir er í Þórshöfn og ræddi við forráðamenn liðsins í dag. Það verður síðan annar fundur á morgun og málin skýrast eftir hann.

HB frá Þórshöfn lenti í fimmta sæti í færeysku deildinni á síðustu leiktíð og eru forráðamenn mjög ákafir í að fá Heimi en honum er ætlað að koma liðinu aftur á toppinn.

HB er sigursælasta félagið í sögu færeysku deildarinnar en HB varð færeyskur meistari í 22. sinn árið 2013 en hefur ekki unnið titilinn síðan.

HB mætti FH sumarið 2007 þegar Heimir var aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar. FH vann þá 4-1 samanlagt eftir 4-1 sigur í Kaplakrika.

Samningi Heimis við FH var sagt upp í byrjun október eftir nánast óslitna sigurgöngu í mörg ár. Hann gerði FH fimm sinnum að Íslandsmeisturum og sumarið í ár var það eina sem liðið endaði ekki í tveimur efstu sætunum.

FH endaði í 3. sæti í Pepsi-deildinni og tapaði fyrir ÍBV í bikarúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×