Fótbolti

Guðbjörg fyrsta íslenska stelpan í fjögur ár sem er tilnefnd á Fotbollsgalan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir fagnar á móti Þýskalandi á dögunum.
Guðbjörg Gunnarsdóttir fagnar á móti Þýskalandi á dögunum. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir er ein af þremur sem er tilnefnd sem besti markvörður ársins í Svíþjóð.

Þrír markverðir eru tilnefndir að þessu sinni en þeir sem koma til greina fyrir þessi árlegu verðlaun eru þeir leikmenn sem eru að spila í sænsku deildinni eða sænskir leikmenn sem eru að spila erlendis.

Hilda Carlén hjá Pitea og Hedvig Lindahl hjá Chelsea á Englandi munu keppa um verðlaunin við Guðbjörgu Gunnarsdóttur.

Þetta er í fyrsta sinn í fjögur ár sem íslenskur leikmaður er tilnefndur til verðlauna á Fotbollsgalan eða síðan árið 2013 þegar Þóra Björg Helgadóttir var tilnefnd sem besti markvörður og Sara Björk Gunnarsdóttir var tilnefnd sem besti miðjumaður.

Þóra Björg Helgadóttir vann þessi verðlaun árið 2013 en Hedvig Lindahl hefur unnið þau síðan eða í þrjú ár í röð.

Guðbjörg Gunnarsdóttir hefur verið tilnefnd áður til þessara verðlauna eða árið 2012 þegar hún tapaði fyrir Þóru.

Guðbjörg hefur fengið 22 mörk á sig í 16 leikjum með Djurgarden á tímabilinu en liðið er í fimmta sæti í sænsku úrvalsdeildinni.

Verðlaunahafar verða tilkynntir á sérstöku verðlaunakvöldi þann 20. nóvember næstkomandi.



Hér má sjá allar tilnefningarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×