Skoðun

Háir vextir

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar
Undirliggjandi vandi hagkerfisins er háir vextir sem hafa mikil áhrif á gengisflökt krónunnar. Seðlabankinn tekur ákvörðun um hversu hátt vaxtastigið eigi að vera. Eins og staðan er í dag, er fólk þvingað til að taka verðtryggð lán. Hver greiðsla er lægri af láninu í hverjum mánuði, en heildarlánið verður hærra. Verðtryggð lán taka mið af vísitölu neysluverðs á hverjum tíma, en verðbólga veldur tugi milljarða hækkun á skuldum heimilanna. Þess vegna þarf að banna verðtryggingu á nýjum neytenda- og íbúðalánum. Í kjölfarið munu bankarnir fara að bjóða lægri vexti.

Húsnæðisliður út úr vísitölu

Húsnæðisliðurinn skekkir vísitölu neysluverðs. Til að sporna við því að íbúðarlánið hækki á lánstímanum þarf að byrja á því að fjarlægja húsnæðisliðinn út úr vísitölunni og banna verðtrygginguna.

Framboðið af húsnæði hefur ekki haldið í gríðarlega eftirspurn sem leitt hefur til meiri verðhækkana á húsnæði en verð á öðrum vörum og þjónustu. Vísitalan tekur mið af verðhækkunum og heimili landsins blæða. Það er með öllu óásættanlegt að borga þurfi aukalega himinháa verðtryggingu sökum þessa.

Afnemum verðtryggingu

Afnám verðtryggingar mun leiða til þess að bankarnir þurfa að bjóða óverðtryggð lán sem verða hagstæðari en nú þekkist. Lífeyrissjóðirnir hafa einnig komið sterkir inn á markaðinn og sýnt að þeir eru vel samkeppnishæfir við bankana.

Við þurfum einnig að bregðast við fákeppninni sem ríkir á bankamarkaði. Því er nauðsynlegt að ríkið eigi einn af stóru bönkunum og marki honum stefnu um að efla samkeppni í bankaþjónustu, almenningi og atvinnulífi til hagsbóta.

Síðast en ekki síst þá er mikilvægt að við öll tökum nú höndum saman og knýjum fram vaxtalækkun til að tryggja stöðugleika hjá hverju og einu okkar. Ríkisvaldið, Seðlabankinn, sveitarfélögin og aðilar vinnumarkaðarins þurfa því að sammælast um að lækka vexti í landinu. Þannig tryggjum við stöðuga krónu og aukum kaupmátt hjá okkur öllum. Getum við ekki öll verið sammála um það?

 

Höfundur er formaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×