Heimir Guðjónsson, fyrrverandi þjálfari FH, veltir því nú fyrir sér hvort hann eigi að taka við færeyska liðinu HB frá Þórshöfn.
Heimir var í Færeyjum um helgina og kom heim með tilboð frá HB. Þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is.
„Þeir gerðu mér tilboð sem ætla að gefa mér nokkra daga til að vega og meta áður en ég tek ákvörðun. Mér leist bara vel á það sem HB hafði fram að færa og það ætti að skýrast áður en þessi vika er búin hvert framhaldið verður,“ sagði Heimir.
HB endaði í 5. sæti færeysku deildarinnar á síðasta tímabili. Að því loknu hætti Heðin Askham þjálfun liðsins. Forráðamenn HB vilja fá Heimi sem eftirmann Askams.
Heimir var látinn fara frá FH í byrjun mánaðar eftir 17 ár hjá félaginu. Heimir stýrði FH í áratug og á þeim tíma varð liðið fimm sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari.
Heimir kom heim með tilboð frá HB

Tengdar fréttir

Heimir ekki á leið til Götu
Heimir Guðjónsson, fyrrverandi þjálfari FH, mun ekki taka við færeysku meisturunum í Víkingi frá Götu.

Heimir er staddur í Þórshöfn og opinn fyrir því að taka við HB í Færeyjum
Heimir Guðjónsson, fráfarandi þjálfari FH, er eins og áður kom fram á Vísi í dag, í viðræðum við færeyska knattspyrnuliðið HB.