Erlent

Lögreglan safnar sönnunargögnum með það fyrir augum að handtaka Weinstein

Birgir Olgeirsson skrifar
Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. Vísir/Getty

Lögreglan í New York í Bandaríkjunum er sögð hafa í vinnslu mál sem gæti leitt til handtöku kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein. Er málið sagt byggja á ásökunum leikkonu sem segir Weinstein hafa nauðgað henni fyrir sjö árum.



Greint er frá þessu á vef The New York Times en blaðamenn á vegum fjölmiðilsins sátu blaðamannafund í höfuðstöðvum lögreglunnar á Manhattan fyrr í dag. Þar kom fram að lögreglan væri að safna sönnunargögnum með það fyrir augum að handtaka Weinstein.



Leikkonan sem um ræðir er Paz de la Huearta en ásakanir hennar á hendur Weinstein hafa verið til rannsóknar hjá lögreglunni í nokkra daga.



Umfjallanir um ásakanir á hendur Weinstein urðu þess valdandi að lögreglunni bárust fjöldi ábendinga um kvikmyndaframleiðandann.



Weinstein er ekki staddur í New York þessa stundina. Talsmenn hans sögðu við New York Times að hann væri í meðferð sem færi fram fyrir utan New York. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að ekki er búið að handtaka hann nú þegar, því hann er ekki innan borgarmarka. Lögreglan segist þess í stað ætla að reyna að byggja um sterkt mál gegn honum með öflun frekari sönnunargagna.



Lögmaður de la Huearta hefur greint frá því í viðtölum við fjölmiðla að Weinstein hefði brotið tvívegis gegn henni árið 2010 á meðan hún var í borginni. Leikkonan á að baki hlutverk í dramaþáttaröðinni Boardwalk Empire.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×