Íslenski boltinn

Arnari boðið að taka við færeysku liði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar stýrði Breiðabliki í rúm tvö tímabil.
Arnar stýrði Breiðabliki í rúm tvö tímabil. vísir/ernir
NSÍ frá Færeyjum hefur boðið Arnari Grétarssyni, fyrrverandi þjálfara Breiðabliks, að taka við liðinu. Þetta staðfesti Arnar í samtali við 433.is.

„Það virðist vera einhver spenna í Færeyjum fyrir því að fá íslenska þjálfara, þetta kom upp fyrir viku síðan,“  sagði Arnar við 433.is en sem kunnugt er á Heimir Guðjónsson í viðræðum við HB frá Þórshöfn.

„Ég fékk símtal um að það væri möguleiki á spennandi klúbbi þarna, svo kom tilboð í dag og ég ræddi við formanninn í síma. Við fórum yfir þetta mál, ég á svo von á heyra meira frá þeim í kjölfarið. Þetta er klárlega ekki fyrsti kostur, ég hlusta samt ef þetta er spennandi. Maður skoðar þetta með opnum hug.“

Arnar er án starfs eftir að hafa verið látinn fara frá Breiðabliki í byrjun maí. Arnar stýrði Blikum í rúm tvö tímabil en þar áður var hann yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK í Aþenu og Club Brügge.

Arnar segist að nokkur lið hafi haft samband við sig síðan hann var rekinn frá Breiðablik.

„Það var talað við mig strax eftir að ég fór frá Blikunum og svo líka í haust. Það var ekki búið að spilast úr þessum kapal og ég vildi hreinlega sjá hvað myndi gerast. Ég hafði áhuga á að fara í eitthvað þar sem maður er að keppa um eitthvað, það eru fáir þannig klúbbar. Þeir klúbbar sem höfðu samband voru svo búnir að klára sín mál þegar þetta kláraðist allt saman,“ sagði Arnar.


Tengdar fréttir

Heimir kom heim með tilboð frá HB

Heimir Guðjónsson, fyrrverandi þjálfari FH, veltir því nú fyrir sér hvort hann eigi að taka við færeyska liðinu HB frá Þórshöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×