Erlent

Spacey sagður vera að leita sér hjálpar

Atli Ísleifsson skrifar
Kevin Spacey er sakaður um að hafa áreitt fjórtán ára dreng kynferðislega árið 1985.
Kevin Spacey er sakaður um að hafa áreitt fjórtán ára dreng kynferðislega árið 1985. Vísir/AFP

Talsmaður bandaríska leikarans Kevin Spacey segir að Spacey leiti sér nú hjálpar eftir að ásakanir um að hann hafi áreitt dreng fyrir um þrjátíu árum. Leikarinn Anthony Rapp greindi á mánudaginn frá því að Spacey hafi áreitt sig kynferðislega árið 1985, þegar Rapp var fjórtán ára og Spacey 26 ára.



Spacey, sem hefur á síðustu árum farið með aðalhlutverkið í þáttunum House of Cards, segist ekki muna eftir atvikinu, en að honum hrylli við að heyra sögu Rapp. „En ef ég hef hegðað mér líkt og hann lýsir þá skulda ég honum innilega afsökunarbeiðni,“ sagði Spacey fyrr í vikunni.



Þá opinberaði hann að hann lifi nú lífi sínu sem samkynhneigður maður og hefur Spacey verið harðlega gagnrýndur fyrir að hafa nýtt þetta tækifæri til að greina frá kynhneigð sinni.



Leggur mat á stöðuna

Í yfirlýsingu frá talsmanni Spacey kemur fram að hann taki sér nú tíma til að leggja mat á málið og leita sér aðstoðar. Ekki verði frekari upplýsingar gefnar að svo stöddu.



Í frétt Sky News er haft eftir mexíkóska leikaranum Roberto Cavazos, sem starfaði með Spacey í leikhúsinu Old Vic í London, að hann eigi von á holskeflu af nýjum ásökunum á hendur Spacey á næstu dögum. „Svo virtist vera að eina skilyrðið fyrir því að Spacey þótti að sér væri frjálst að snerta okkur, væri að verið vorum karlkyns og undir þrítugu.“



Hann segist sjálfur hafa átt óþægileg samskipti við Spacey, sem væru á mörkum þess að mega flokka sem áreitni. Netflix hefur nú frestað framleiðslu þáttanna House of Cards.



Ásakanir á hedur Spacey koma í kjölfar hneykslismála tengdum framleiðandanum Harvey Weinstein sem sakaður er um nauðgun og að hafa áreitt tugi kvenna kynferðislega.Þá hafa ásakanir á hendur leikurunum Jeremy Piven og Dustin Hoffman einnig komið fram á síðustu dögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×