Fótbolti

Eiður Smári: "Ég fékk mína stund með landsliðinu á EM“

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen þakkar fyrir leik á EM 2016.
Eiður Smári Guðjohnsen þakkar fyrir leik á EM 2016. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen var í skemmtilegu viðtali á heimasíðu Chelsea um helgina. Fyrri partur viðtalsins var birtur í gær og sá síðari í morgun.

Eiður er í viðtalinu lofsamaður af heimasíðu félagsins. Hann hafi unnið allt sem hægt er að vinna með Chelsea og það segi allt að Barcelona, lið sem var með Ronaldinho, Lionel Messi og Samuel Eto'o innanborðs hafi keypt hann.

Eiður fer um víðan völl í viðtalinu. Þar á meðal ræðir hann hversu stór stund það var fyrir sig þegar að Chelsea keypti hann af Bolton, þá 21 árs að aldri, tímabilið magnaða 2004-5 þegar að Chelsea vann ensku deildina í fyrsta skipti og hversu erfitt það var fyrir sig að yfirgefa Chelsea.

Að lokum barst talið að íslenska karlalandsliðinu í fótbolta og endalokum landsliðsferils Eiðs á EM í Frakklandi í fyrra.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn voru tímar þar sem að íslenska landsliðið var einfaldlega lélegt. En núna erum við heila kynslóð af leikmönnum sem eru á sama aldri, með sömu gæði, og þegar þeir klæðast íslensku treyjunni ná þeir á ótrúlegan hátt saman,“ sagði Eiður.

Eiður sagði ennfremur að það hefði ekki skipt sig máli hversu lítið hlutverk hann spilaði á EM. Bara það að taka þátt hefði nægt honum og gert það að verkum að öll þessu erfiðu ár með landsliðinu voru þess virði.

„Bara það að geta verið hluti af liðinu og að vera í eiginlegu föðurhlutverki var frábært. Ég fékk mína stund með landsliðinu á EM.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×