Leikarinn George Takei segist ekki hafa brotið kynferðislega á ungum leikara árið 1981. Scott R Brunton sakaði Takei í gær um að hafa káfað á sér þegar hann var sofandi og gaf í skyn að eitthvað hefði verið sett í drykk hans. Hann segist hafa vaknað við það að Takei hafi verið að reyna að klæða hann úr og káfa á kynfærum hans.
„Þetta gerðist fyrir löngu síðan en ég hef aldrei gleymt þessu,“ sagði Brunton við Hollywood Reporter. Fjórir vinir Brunton staðfestu við HR að hann hefði margsinnis rætt þetta í gegnum tíðina.
Brunton segist hafa verið að vinna sem þjónn og á sama tíma reyna fyrir sér sem leikari og fyrirsæta. Eftir að hann hætti með kærasta sínum segir Brunton að Takei hafi boðið honum heim til sín og þar hafi Takei brotið á honum.
Í röð tísta nú í dag sagði Takei að atvikið sem Brunton lýsti hefði aldrei gerst. Hann segist ekki muna eftir því að hafa hitt Brunton og hann skilji ekki af hverju hann sé að saka hann um kynferðisbrot.