Innlent

Innbrotið í Kópavogi: Fannst klént að láta þjófinn fara eftir tannbrotið

Kolbeinn Tumi Daðason og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Innbrotsþjófarnir voru yfirheyrðir seinnipartinn í gær eftir að hafa sofið úr sér. Þeir voru í annarlegu ástandi þegar þeir voru handteknir. Mennirnir hafa komið áður við sögu lögreglu.
Innbrotsþjófarnir voru yfirheyrðir seinnipartinn í gær eftir að hafa sofið úr sér. Þeir voru í annarlegu ástandi þegar þeir voru handteknir. Mennirnir hafa komið áður við sögu lögreglu. Vísir/Vilhelm

Gunnlaugur Sigurðsson, íbúi í vesturbænum í Kópavogi sem ráðist var á á heimili hans seint á þriðjudagskvöld, ber sig vel. Hann segir að hann hefði getað lent í einhverju miklu verra. Hann segist ekki hafa verið óttasleginn og var mjög yfirvegaður þegar Vísir ræddi við hann í gær.

Greint var frá því í gærmorgun að þrír menn hefðu ráðist inn á heimili í Kópavogi laust fyrir miðnætti á þriðjudagskvöld og gengið þar í skrokk á húsráðanda sem ætlaði að stugga við þeim. Við það hefði hann hlotið nokkra áverka, meðal annars misst meðvitund og nokkrar tennur.

Vísir ræddi við nokkra nágranna mannsins sem stóð ekki á sama í gær. Nokkrir hafa orðið varir við óspektir í nærliggjandi götum í vesturbænum í Kópavogi. Hins vegar bendir ekkert til annars en að innbrotsþjófarnir hafi farið inn á heimili Gunnlaugs fyrir tilviljun.

Þjófurinn á tali við hundinn

Gunnlaugur lýsir atburðarásinni í samtali við Vísi og segir að átökin hafi fyrst og fremst verið við einn mannanna sem kom inn á heimili hans. Hinir tveir hafi verið utandyra. Hann varð var við umgang í húsinu en taldi son sinn og kærustu vera á ferðinni. Það hafi hins vegar ekki gengið upp í hans huga. Hann hafi því farið af efri hæðinni niður á jarðhæðina.

„Ég sá að þessi maður var inni í húsinu en hann var að tala við heimilishundinn,“ segir Gunnlaugur. 

„Aðrir voru svo staddir fyrir utan húsið, allavega einn eða tveir og þeir voru svolítið grunsamlegir. Ég vildi vita deili á þeim því ég var ekki viss nema þeir hefðu farið eitthvað um húsið því það stóð þannig á hjá okkur. Ég spurði þennan sem var inni hvað hann væri að gera og hann sagðist bara vera að tala við hundinn. Ég sagði að ég myndi nú stinga upp á því að við kölluðum á lögregluna og hann gæti þá útskýrt fyrir henni að það væri ekkert athugavert við ferðir hans. En þá snöggreiðist hann og brýtur í mér mér eina tönn,“ segir Gunnlaugur.

Maðurinn verður að líkindum kærður fyrir stórfellda líkamsárás af því hann sló Gunnlaug með steini.Vísir/Eyþór

Hann kveðst við það hafa verið enn ákveðnari í að lögreglan kæmi að málinu.

Klént að leyfa þjófnum að fara eftir tannbrotið

„Mér fannst mér dálítið klént að láta hann fara fyrst hann var búinn að brjóta úr mér tönn,“ segir hann. Auk þess hafði maðurinn í hótunum við hann sem Gunnlaugur hafi að vísu ekki tekið alvarlega.

„Eins og menn gera. Sagðist þekkja menn,“ segir Gunnlaugur. Í framhaldinu náði Gunnlaugur til mannsins og áflog hófust í kjölfarið. Gunlaugur, sem fagnaði 67 ára afmæli á dögunum, segir ansi langt síðan hann flaugst síðast á.

„Ég ætlaði nú bara að halda honum þannig að hann róaðist niður og myndi kannski fallast á þetta sjónarmið að lögreglan kæmi,“ segir Gunnlaugur. Hann hafi náð góðu taki á manninum. 

„En þá vill svo óheppilega til að hann nær að losa aðra höndina, nær taki á oddhvössum steini og getur dúndrað steini í hausinn á mér svo ég vankaðist,“ segir Gunnlaugur. 

Hann leggur áherslu á að mennirnir þrír hafi ekki allir ráðist á sig en sá sem það gerði hafi vissulega farið offari. 

Óþarfi að slá með steini

„Það var engin ástæða fyrir hann til að berja mig í hausinn með steini. Ég var í versta falli bara að fara að halda honum.“

Gunnlaugur veltir fyrir sér hvort hann hefði átt að nálgast mennina með öðrum hætti. Hann hafi ekki viljað nein læti en þó þurft að ganga úr skugga um hvort þeir hefðu stolið einhverju eða væru jafnvel með þýfi úr nærliggjandi húsum og bílum.

„Ég býst við að það hefði nú ekki orðið meira úr þessu nema þetta að hann braut í mér tönnina og þessar grunsemdir mínar um að þeir hefðu kannski stolið einhverju, við áttum nú eftir að fara yfir það,“ segir Gunnlaugur.

Velti upp fundi hjá Hjálpræðishernum

Hann missti nánast meðvitund þegar maðurinn sló hann í höfuðið með steininum en Gunnlaugi tókst undir lokin að sparka steininum úr höndunum á honum. Þá leystist þetta upp að hans sögn en eiginkona hans og sonur voru þá komin á vettvang og lögreglan á leiðinni. 

„Maður hefði getað lent í miklu verra, þeir komu ekki með hafnaboltakylfur og rotuðu alla og tæmdu húsið, þetta var ekki svoleiðis. Þetta eru bara ógæfumenn,“ segir Gunnlaugur en mennirnir stálu fartölvu af heimilinu. Áður en þeir mættu óboðnir á heimili Gunnlaugs höfðu þeir áreitt kvenkyns leigubílstjóra og yfirgefið bílinn án þess að greiða fargjaldið.

Gunnlaugur velti því upp við lögreglu hvort ekki væri vænlegra til árangurs að láta starfsmenn Hjálpræðishersins ræða við mennina, frekar en að leggja fram kæru. Á myndinni má sjá fyrrum bækistöðvar hersins á Íslandi í Aðalstræti.Vísir/GVA

Gunnlaugur segist ekki hafa viljað kæra mennina. Raunar hafi hann, þegar lögreglan spurði hvort hann vildi kæra þá, spurt á móti hvort það væri ekki líklegra til árangurs fyrir þjófana að starfsmenn Hjálpræðishersins ræddu við þá, og koma fyrir þá vitinu. En þar sem lögreglan rannsaki málið sem stórfellda líkamsárás fari það sína leið í kerfinu. 

Bara tilviljun

Það vekur athygli blaðamanns hve rólegur Gunnlaugur er yfir þessu öllu saman. Eflaust er það martröð margra að koma aða ókunnugum mönnum á heimili sínu að næturlagi. Svar Gunnlaugs við þeim vangaveltum er yfirvegað eins og öll önnur svör.

„Ég veit ekkert um þessa menn og það virðist vera tilviljun að þeir ráfuðu inn í húsið mitt. Það er bara einhvern veginn þannig að mér hefur aldrei fundist mér vera raunverulega ógnað og ég var ekkert óttasleginn við þetta. Þetta var bara tilviljun,“ segir Gunnlaugur sem fór á fund tannlæknis strax í gær vegna tannbrotsins.

Framundan hjá Gunnlaugi í dag er svo kennsla samkvæmt áætlun við Háskóla Íslands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×