Fótbolti

Guðmundur Andri kynntur sem leikmaður Start í beinni á Facebook | Myndband

Guðmundur Andri Tryggvason í beinni.
Guðmundur Andri Tryggvason í beinni. mynd/skjáskot
Guðmundur Andri Tryggvason, 18 ára gamall leikmaður KR og U19 ára landslið Íslands í fótbolta, er genginn í raðir norska úrvalsdeildarliðsins Start.

Þetta var tilkynnt í beinni á Facebook-síðu liðsins sem vann sér inn sæti í úrvalsdeildinni með því að hafna í öðru sæti 1. deildarinnar í ár.

Guðmundur Andri er einn efnilegasti leikmaður landsins en hann kom við sögu í þrettán leikjum með KR á síðustu leiktíð í Pepsi-deildinni og skoraði eitt mark.

Hann fetar nú í fótspor föður síns, Tryggva Guðmundssonar, sem spilaði í Noregi við góðan orðstír um árabil áður en hann kom heim og varð markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar.

Guðmundur Andri var í U16 ára landsliði Íslands sem vann brons á Ólympíuleikum æskunnar fyrir þremur árum en í heildina á hann 25 leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands.

Kristján Flóki Finnbogason, fyrrverandi framherji FH, gekk í raðir Start um mitt sumar og verður samherji Guðmundar Andra en Guðmundur Kristjánsson yfirgaf herbúðir liðsins og samdi við FH eftir að tímabilinu lauk í Noregi.

Hér að neðan má sjá útsendinguna þar sem Guðmundur Andri var kynntur til leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×