Íslenski boltinn

Fyndnasta mark ársins á Íslandi var skorað í næst síðasta leik ársins | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Óheppnir strákar.
Óheppnir strákar. mynd/skjáskot
Víkingur hafði betur gegn Fjölni, 4-1, í leiknum um þriðja sætið í Bose-bikarnum sem er árlegt mót sem nokkur lið úr efstu deild taka þátt í undir lok hvers árs.

Leikurinn var í beinni útsendingu á Sport TV.

Danski framherjinn Nikolaj Hansen kom Víkingum yfir, 1-0, úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur á 22. mínútu en í næstu sókn jafnaði Almarr Ormarsson metin fyrir Fjölni með glæsilegu marki. Almarr kom frá KA í Grafarvoginn.

Gunnlaugur Hlynur Birgsson, sem gekk í raðir Víkings frá nöfnum þeirra í Ólafsvík, kom Fossvogsliðinu aftur yfir á 68. mínútu og Valdimar Ingi Jónsson skoraði á 73. mínútu og kom Víkingi í 3-1.

Fyndnasta mark leiksins og í raun fyndnasta mark ársins átti enn eftir að líta dagsins ljós en það skoraði Orri Þórhallsson, leikmaður Fjölnis sem er fæddur árið 2001. Hann varð fyrir því óláni að samherji hans, Ísak Atli Kristjánsson, þrumaði boltanum í andlitið á honum og þaðan í netið. Óheppilegt en mjög fyndið.

Þetta var næst síðasti leikur ársins sem má kalla mótsleik en sá síðasti fer fram í kvöld þegar að Stjarnan og Breiðablik mætast í úrslitaleik Bose-bikarsins.

Markið fyndna má sjá hér að neðan en það kemur eftir 1:43 í myndbandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×