„Þetta er í takt við það sem við höfum gert ráð fyrir og sýnir hvað ferðaþjónustan er orðin mikilvæg þjóðarbúinu. Fyrir eyland eins og Ísland skipta utanríkisviðskipti öllu máli og ánægjulegt að það sé búið núna á nokkrum árum að fjölga eggjunum í körfunni svo um munar,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.

„Þessi rúmlega 15 prósenta aukning í gjaldeyristekjum er minni vöxtur en í fjölda ferðamanna milli ára. Út af erfiðum ytri skilyrðum og versnandi samkeppnishæfni, meðal annars vegna sterks gengis krónunnar, mikilla launahækkana og fjárfestingar greinarinnar sem nam tæpum 200 milljörðum árin 2015 til 2016, þá höfum við séð breytingu á neyslumynstri ferðamannsins. Bæði að hann dvelur skemur og er ekki að nýta sér þjónustu í jafn miklum mæli og áður. Fyrirtækin finna fyrir þessu og það er ekki línulegt samband milli fjölgunar ferðamanna og afkomu í greininni,“ segir Helga.
„Hröðum vexti eins og við erum búin að upplifa síðustu misseri fylgja auðvitað áskoranir en á sama tíma mikil tækifæri. Það er undir okkur öllum komið, stjórnvöldum, greininni sjálfri og landsmönnum að vel takist til.“