„Þetta er alveg ömurlegt,“ segir Hjördís Þórhallsdóttir flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli. Hún segir að byrjað hafi að snjóa hressilega upp úr hádegi og skyggnið orðið mjög slæmt. Flugmennirnir hafi gert nokkra tilraunir til að lenda og biðu svo í dágóða stund til að sjá hvort élið myndi ganga yfir. Svo var haldið til Keflavíkur, líkt og gert var á mánudaginn.
Hjördís telur 189 manns hafa verið í vélinni, rétt tæplega full, en um erlenda ferðamenn er að ræða á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break. Jómfrúarflugið var föstudaginn 12. janúar við mikil fagnaðarlæti á Akureyri.

Kallað er eftir því að blindflugsbúnaði verði komið upp á norðurenda brautarinnar á Akureyri. Kostnaður við búnaðinn, sem er að finna á suðurenda brautarinnar og ætlaður minni flugvélum, er talin rúmlega 70 milljónir króna. Hjördís segir að slíkur búnaður myndi gera gæfumuninn.
„Við erum búin að fá sérfræðinga frá Noregi til að skoða þetta en erum ekki með fjármagn frá ríkinu,“ segir Hjördís. Íslenskir flugmenn geti lent í veðri eins og í dag með radarflugi. Því séu erlendir flugmenn aftur á móti óvanir auk þess sem þeir þekki ekki völlinn.
Farþegarnir 189 eru því í Keflavík og Hjördís segir ljóst að ekki verði flogið norður í dag. Farþegar sem áttu að fljúga heim til sín með Enter Air fara með áætlunarflugi til Keflavíkur síðar í dag.