Skoðun

Fjárhagsaðstoð og mannréttindabrot

Vilborg Oddsdóttir skrifar
Hvert leitar fólk sem býr við fátækt og félagslega einangrun og getur ekki framfleytt sér eða fjölskyldu sinni? Síðasta „stoppistöðin“ í velferðarkerfinu er fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem sveitarfélög eru skyldug til að vera með samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Hverju og einu sveitarfélagi er heimilt að setja sínar eigin reglur um fjárhagsaðstoðina og eru upphæðir mjög mismunandi, án sýnilegs rökstuðnings. Árið 2017 greiddi Reykjavík hæstu upphæðina, allt að 184.833 kr. á mánuði til einstaklings 18 ára og eldri. Önnur sveitarfélög greiddu minna og gat munað tugum þúsunda á milli sveitarfélaga, jafnvel hjá sveitarfélögum sem mynduðu saman eitt félagsþjónustusvæði. Í reglum sveitarfélaganna er fjárhagsaðstoðin ekki einstaklingsbundin þegar kemur að hjónum og sambúðarfólki og tekjur maka skerða harkalega rétt til fjárhagsaðstoðar.

Stuðningur við fjölskyldu barna sem búa við fátækt og félagslega einangrun er einnig mjög mismunandi, hvort sem um er að ræða upphæðir eða hvað er talið til tekna. Sama má segja um frístundastyrk sem getur skipt verulegu máli fyrir þátttöku barna í frístundum sem búa við fátækt og félagslega einangrun.

Erfitt er að sjá hvernig þetta getur staðist ákvæði stjórnarskrár Íslands þar sem kveðið er á um að ekki má mismuna fólki og að öllum skal tryggður réttur í lögum til aðstoðar vegna m.a. örbirgðar. Í svokölluðum öryrkjadómum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að einstaklingur, sem þess þarf, skuli eiga beinan og raunhæfan rétt til aðstoðar frá ríkinu og að sá réttur nýtur verndar stjórnarskrárinnar.

Alþingi ber að setja lög sem tryggja öllum lágmarksrétt. Ekki er ásættanlegt að vísa ábyrgðinni á sveitarfélög. Því er það miður að í frumvarpi félags- og jafnréttismálaráðherra um félagsþjónustu sveitarfélaga sem nú liggur fyrir Alþingi skuli ekki vera skýr ákvæði um lágmarksframfærslu.

EAPN á Íslandi skorar því á velferðarnefnd Alþingis að leggja til nauðsynlegar breytingar svo að mannréttindi fólks sem býr við fátækt og félagslega einangrun verði tryggð á Íslandi.

Höfundur er félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×