Fótbolti

Matthías fær samkeppni frá tveimur landsliðsframherjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson. Vísir/Getty
Matthías Vilhjálmsson stóð sig frábærlega með Rosenborg á síðustu leiktíð en nú verður enn erfiðara fyrir íslenska framherjann að fá mínútur hjá norsku meisturunum á komandi tímabili þegar Matthías kemur til baka eftir krossbandaslitið.

Samkeppni jókst nefnilega til mikilla muna í gær þegar Rosenborg keypti norska landsliðsframherjann Alexander Söderlund frá Saint-Etienne. Fyrir er danski landsliðsframherjinn Nicklas Bendtner.

Alexander Söderlund skrifaði undir þriggja ára samning við Rosenborg. „Það er ótrúlega gott að koma til baka. Nú hlakka ég aftur til að fara á æfingar,“ sagði Söderlund við heimasíðu Rosenborg.

„Ég hef heyrt að Nicklas sé mjög góður gaur og ég hlakka til að hitta hann á æfingum og spila með hinum,“ sagði Söderlund en hann minntist samt ekkert á Matthías.  Matthías hefur sjálfur sett stefnuna að koma til baka um mitt sumar.





Alexander Söderlund skoraði sitt fyrsta landsliðsmark fyrir Lars Lagerback í 1-1 jafntefli á móti Tékkum í undankeppni HM í júní síðastliðnum en Bendtner hefur skorað 30 mörk fyrir danska landsliðið og það síðasta kom þegar Danir tryggði sér sæti í úrslitakeppni HM í Rússlandi.

Söderlund er að koma aftur til Rosenborg þar sem hann skoraði 38 mörk í 63 deildarleikjum frá 2013 til 2015.

Matthías Vilhjálmsson kom til Rosenborg frá Start á miðju sumri 2015 og lék fyrsta hálfa tímabilið með Söderlund. Þeir höfðu einnig leikið saman hjá FH sumarið 2009.

Matthías meiddist á hné í ágústlok á síðasta tímabili eftir að hafa skorað 15 mörk í 23 deildar- og bikarleikjum fram að því. Hann var þá markahæsti leikmaður Rosenborg en eftir að íslenski framherjinn meiddist þá fór Nicklas Bendtner í gang.

Nicklas Bendtner skoraði 10 mörk í síðustu 10 deildarleikjum tímabilsins og endaði sem markakóngur norsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×