Erlent

Trump sagður styðja bætt eftirlit með byssukaupum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjöldamorðið í framhaldsskólanum á Flórída hefur vakið óhug í Bandaríkjunum. Nemendur skólans hafa vakið athygli fyrir málflutning sinn fyrir hertri byssulöggjöf í kjölfar ódæðisins.
Fjöldamorðið í framhaldsskólanum á Flórída hefur vakið óhug í Bandaríkjunum. Nemendur skólans hafa vakið athygli fyrir málflutning sinn fyrir hertri byssulöggjöf í kjölfar ódæðisins. Vísir/AFP

Talsmaður Hvíta hússins segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti styðji þverpólitískt frumvarp um að bæta bakgrunnseftirlit með þeim sem kaupa skotvopn. Nemendur sem lifðu af fjöldamorð í skóla á Flórída ætla að boða til kröfugöngu fyrir hertri byssulöggjöf í Washington í vor.

Sautján létu lífið í skotárás ungs byssumanns í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Parkland á Flórída á miðvikudag. Morðinginn notaði hríðskotabyssu í árásinni. Nemendur við skólann og víðar hafa látið duglega í sér heyra og krafist aðgerða til að koma í veg fyrir fleiri fjöldamorð með skotvopnum af þessu tagi í Bandaríkjunum.

Lítið hefur hins vegar orðið um aðgerðir stjórnvalda þrátt fyrir mikla reiði eftir fyrri skotárásir í skólum og víðar. Sumir nemendanna hafa því boðað til fjöldagöngu í Washington-borg 24. mars, að því er CNN-fréttastöðin greinir frá. Ætlun þeirra er að setja þrýstingin á ráðamenn til að þeir geti ekki lengur vikið sér undan því að breyta reglum um skotvopn.

Repúblikanar andsnúnir hertri löggjöf

Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, segir að Trump forseti styðji frumvarp sem öldungadeildarþingmenn beggja flokka á Bandaríkjaþingi eru með í smíðum. Því er ætlað að bæta eftirlit alríkisstjórnarinnar með því hverjir fá að kaupa skotvopn sem nú þegar er kveðið á um í lögum.

Frumvarpið var upphaflega lagt fram í nóvember eftir að byssumaður skaut á þriðja tug kirkjugesta til bana í Texas. John Cornyn, annar flutningsmanna frumvarpsins, segir að alríkisstofnanir hafi framfylgt lögunum um bakgrunnseftirlit slælega, að því er segir í frétt Reuters.

Repúblikanaflokkur Trump hefur verið algerlega andsnúinn hertri löggjöf um skotvopnaeign sem repúblikanar telja vera stjórnarskrárvarinn rétt Bandaríkjamanna. Trump hefur sjálfur talað fyrir réttindum byssueigenda og naut stuðnings Skotvopnasamtaka Bandaríkjanna (NRA) fyrir kosningarnar árið 2016.

Tilraunir demókrata til herða byssulöggjöfina eftir fjöldamorðið í Sandy Hook-grunnskólanum í Connecticut árið 2012 þar sem tuttugu börn og sex fullorðnir voru myrtir með skotvopnum fóru út um þúfur vegna andstöðu repúblikana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×