Laugar, undir nafninu Þrek ehf. á þeim tíma, kvartaði til Samkeppniseftirlitsins undan niðurgreiðslu Kópavogsbæjar á rekstri líkamsræktarstöðvar Gym heilsu ehf. í sundlaugum bæjarins. Þannig væri Gym heilsu gert kleift að bjóða þjónustu á verði sem aðrir gætu ekki keppt við.
Samkeppniseftirlitið tók afstöðu með Laugum og í febrúar 2012 féllst bærinn á að bjóða líkamsræktaraðstöðuna út. Engin tilboð bárust hins vegar og hélt Gym heilsa starfseminni áfram. Undan því kvörtuðu Laugar til Samkeppniseftirlitsins og í mars 2014 auglýsti bærinn aftur eftir tilboðum í aðstöðuna. Laugar buðu þá ríflega 101 milljón króna og Gym heilsa tæpar 88 milljónir.
Formgalli var á tilboði Gym heilsu þar sem einingarverð og undirskrift vantaði og bent var á að trygg fjárhagsstaða væri skilyrði en að eiginfjárstaða Lauga væri neikvæð.

Kópavogsbær sagði viðbrögð kjörinna fulltrúa ekki hafa skipt máli er tilboði Lauga var hafnað. Tilboð Gym heilsu var metið ógilt og því hvorugu tilboðinu tekið en samningurinn við Gym heilsu framlengdur til 1. júní 2016. Eftir tvo útboð til viðbótar tók Rebook Fitness aðstöðuna á leigu.
Laugar kröfðust 659 milljóna króna í bætur í desember 2014 vegna ólögmætrar höfnunar á tilboði. Þessari kröfu hafnaði Kópavogsbær. Laugar fékk þá dómkvaddan matsmann til að meta tjón fyrirtækisins. Taldi hann tjónið vera 201 milljón króna ef samningur hefði verið til tólf ára og 155 milljónir miðað við átta ára samning. Stefndu Laugar síðan Kópavogsbæ og kröfðust 201 milljónar króna bóta en upphæðin var síðan lækkuð í 110 milljónir eftir yfirmat nýrra dómkvaddra matsmanna.
Héraðsdómur Reykjanes segir að þar sem ársreikningar Lauga hafi síðustu tvö árin sýnt neikvætt eigið fé hafi höfnun tilboðsins verið á málefnalegum grunni. „Voru engar grunnreglur stjórnsýslu brotnar sem geta leitt til skaðabótaskyldu,“ segir í dóminum.