Skoðun

Sagan endurtekur sig

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Síðari heimsstyrjöldinni er að ljúka og víða sjást auglýsingar með læknum og tannlæknum sem skarta sígarettum. Háls-, nef- og eyrnalæknir segir okkur að gefa hálsinum frí með því að reykja ferskar CAMEL sígarettur og tannlæknir mælir með VICEROYS. Markaðssetning sér til þess að árið 1967 reykja allt að 60% landsmanna og það þykir sjálfsagt að reykja innan um ungbörn, á spítölum og í flugvélum.

Eftir hálfrar aldar baráttu erum við nú með eina lægstu tíðni í Evrópu. Um 10% fullorðinna reykja þessa skaðlegu vöru sem drepur helming neytenda hennar.

En miðað við síðustu misseri er engu líkara en við séum að endurlifa nýtt reykingaæði með tilkomu rafsígaretta. Markaðssetning þeirra er þó með öðrum og dulbúnari hætti í formi samfélagsmiðla og ekki alltaf sýnileg okkur foreldrunum. Fjórðungur fermingarbarna hefur prófað rafsígarettur og helmingur menntaskólanema. Rafsígarettur eru orðnar svo algengar að það þykir orðið sjálfsagt að maður gangi innan um reykský.

Því er ekki annað hægt en að fagna frumvarpi heilbrigðisráðherra um hömlur á sölu og útbreiðslu rafsígaretta. Líkt og hagsmunaaðilar börðust hart gegn hömlum á sölu sígaretta hér áður fyrr má búast við að frumvarp um rafsígarettur fái mikinn mótbyr. Þá er gott að hafa hugfast að meginmálið snýst ekki um hvort fullorðnir geti nálgast rafsígarettur til að hætta að reykja – það verður séð til þess – heldur snýst þetta um að rafsígarettur innihalda skaðleg efni og að börn eiga ekki að vera auðveld bráð þeirra.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×