Sendiferðabíll Stjörnugríss valt á Sæbraut en verið var að flytja um 120 bútaða grísi. Afurðin endaði öll í götunni og við tók mikið hreinsistarf sem krafðist þess að lokað var fyrir umferð á Sæbraut til klukkan 10 í morgun.
Við það myndaðist mikil umferðarteppa á Miklubraut og áleiðis upp í Mosfellsbæ þar sem ökumenn sátu fastir í töluverðan tíma.
Sýnist eins og að vagn haf losnað af eða eitthvað. pic.twitter.com/LHNKgJxqS6
— Omar Hauksson (@Oswarez) February 20, 2018
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir allt hafa farið í hnút vegna þessa umferðaróhapps og sumir vegfarendur voru vel á aðra klukkustund á leið til vinnu af þessum sökum.
Segir lögreglan að ástandið hafi verið einna verst hjá þeim sem komu úr austurborginni og Mosfellsbæ og óku Vesturlandsveg og Miklubraut í vestur.
Staðan á Sæbraut og Reykjanesbraut var með sama hætti, en lögreglan segir óhappið undirstrika að mörgu leyti hversu gatnakerfið er viðkvæmt og ekki þurfi mikið til svo umferðin svo gott sem stöðvast.
Fréttin hefur verið uppfærð.


