Sport

Leikmaður Pittsburgh Steelers setti af stað herferð til að fá LeBron James í NFL

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gæti þetta gerst?
Gæti þetta gerst?
JuJu Smith-Schuster, leikmaður Pittsburgh Steelers í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, setti í gærkvöldi af stað herferð í þeim tilgangi að fá LeBron James til að hætta í körfubolta og ganga í raðir Steelers-manna í NFL.

Smith-Schuster tilkynnti um herferð sína á Twitter þar sem hann sagði að LeBron væri búinn að gera allt sem hægt er að gera og vinna allt sem hægt er að vinna í NBA og því væri um að gera að skipta um íþrótt.

Steelers-maðurinn sagði enn fremur að LeBron yrði talinn besti íþróttamaður allra tíma ef hann skiptir um íþrótt og vinnur NFL-deildina með Steelers-liðinu sem er eitt það besta í deildinni. Hann er að vinna með myllumerkið #LeBronToPittsburgh.

LeBron James var ljómandi góður útherji í amerískum fótbolta þegar að hann spilaði íþróttina í menntaskóla áður en hann lagði körfuboltann fyrir sig sem var fínasta ákvörðun.

Smith-Schuster laug engu þegar að hann sagði LeBron búin að vinna allt sem í boði er, en þessi ótrúlegi körfuboltamaður hefur farið átta sinnum í lokaúrslit NBA, unnið þrjá titla, þrisvar sinnum verið kjörinn besti leikmaður lokaúrslitanna, fjórtán sinnum valinn í Stjörnuleikinn og fjórum sinnum kjörinn besti leikmaður deildarinnar.

Opni markaðurinn í NFL-deildinni fer brátt af stað sem er ein ástæða þess að Steelers-maðurinn er að setja þessa herferð af stað núna, en þó Cleveland sé ekki líklegasta liðið til að fara í lokaúrslitin núna er hætt við því að LeBron James verði upptekinn í NBA allavega fram í maí.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×