Fótbolti

Lengjubikarinn: Grindavík og Stjarnan áfram | Undanúrslitin klár

Einar Sigurvinsson skrifar
Vísir/Hanna
Grindavík tryggði sér efsta sæti fjórða riðils þegar liðið sigraði Fylki 3-0 en leikurinn fór fram í Reykjaneshöllinni í dag. Mörk Grindavíkur skoruðu þeir Sam Hewson, Björn Berg Bryde og René Joensen. Fylkismenn enduðu í öðru sæti í riðlinum, þremur stigum á eftir Grindvíkingum.

Stjarnan er einnig komin áfram í Lengjubikarnum. Stjarnan vann riðil þrjú með sigri á Leikni. Leiknum lauk með 1-0 sigri Stjörnunnar en leikurinn fór fram í Breiðholtinu. Leiknir endar Lengjubikarinn því í neðsta sæti riðilsins með eitt stig.

Víkingur Ólafsvík hafnaði í öðru sæti í þriðja riðil eftir sigur á Keflavík. Ólafsvíkingar unnu leikinn 1-0 með marki frá Gonzalo Zamorano Leon.

Haukar og Fjölnir skildu jöfn, 1-1. Anton Freyr Ársælsson kom Fjölni yfir á 18. mínútu en Gylfi Steinn Guðmundsson jafnaði leikinn fyrir Hauka á 65. mínútu og þar við sat. Fjölnir endar þriðja riðil því í 3. sæti með átta stig, en Haukar í því 5. með fjögur stig.

Þar með er ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum Lengjubikarsins sem fara fram 24. mars. KA mætir Grindavík í Boganum klukkan 13.00 og Valur leikur við Stjörnuna á Valsvelli klukkan 16.00. Báðir leikirnir verða sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×