Körfubolti

Kári: Slæmt þegar maður hittir betur úr þristum en vítum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kári Jónsson hefur verið frábær í vetur
Kári Jónsson hefur verið frábær í vetur vísir/eyþór
Kári Jónsson var mættur aftur í byrjunarlið Hauka þegar liðið mætti Keflavík í fyrsta leik einvígis liðanna í 8-liða úrslitum Domino’s deildar karla. Kári hafði ekkert spilað með liðinu frá því í febrúar þegar hann puttabrotnaði á landsliðsæfingu.

Það var ekki að sjá á leik Kára í dag að hann hefði verið frá því hann átti stórleik, var stigahæstur á vellinum með 25 stig í 83-70 sigri Hauka á Keflavík.

„Maður er búinn að æfa vel og sem betur fer var þetta bara hendin og hægri putti svo maður gat haldið sér í standi á meðan ég var ekki í kontakt. Bara virkilega fínn sigur hjá okkur,“ sagði Kári í viðtali eftir leikinn.

„Ég var að fá nokkuð þægileg skot, var í „ryþma“ og leið vel í skotunum. Það voru nokkur þarna inni sem mér fannst ótímabær og slök en það var allt í góðu.“

„Það er svolítið slæmt þegar maður var farinn að hitta betur úr þriggja stiga skotum heldur en vítum og var farinn að skjóta strax þristum, en þá þarf maður að hugsa minna og ekki einbeita sér of mikið.“

Haukar unnu nokkuð þægilegan sigur sem virtist ekki vera í mikilli hættu mest allan leikinn, þrátt fyrir mikla baráttu í vörninni hjá báðum liðum.

„Vörnin okkar var virkilega þétt og góður varnarleikur skóp þetta mest megnis. Sóknin kemur oftast með varnarleiknum, við þurfum að halda því áfram.“

Kári vildi ekki fara of geyst í yfirlýsingarnar, hann sagði hugann vera bara við leikinn í Keflavík á þriðjudag.

„Við ætlum bara að einbeita okkur að fara í Keflavík á virkilega erfiðan útivöll. Þurfum að vera með hausinn alveg einbeittan þar og koma brjálaðir inn í það. Vonandi getum við náð í sigur þar,“ sagði Kári Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×