Í kvöldfréttum RÚV var sagt frá því að frá árinu 2010 hefðu þrjár erlendar konur, tvær breskar og ein írsk, látist eftir magaminnkunaraðgerðir sem framkvæmdar voru af Auðunni þegar hann starfaði í Bretlandi. Fréttastofa RÚV sagði frá því í gær að tvær konur hefðu látist hér á landi eftir að hafa gengist undir magaermaraðgerð á einkarekinni skurðstofu Auðuns.
Auðunn er eigandi fyrirtækisins Gravitast sem hefur á síðustu sex árum framkvæmt magaermisaðgerðir á 250 Íslendingum. RÚV sagði landlæknisembættið rannsaka dauðsföll kvennanna hér á landi og þá eru málin tvö einnig komin á borð hjá lögreglu.

Hann segist í heild hafa framkvæmt yfir 600 magaermisaðgerðir, þar af 250 á Íslendingum á síðastliðnum sex árum.
Auðunn segir að öllum skurðaðgerðum fylgi áhætta og því eðlilegt að einhver tilfelli komi upp á svo löngum starfsferli þar sem eitthvað hefði betur mátt fara.
Hann tekur fram að í Bretlandi sé mjög strangt eftirlit með læknum þar sem árlegt uppgjör fer fram á þeirra störfum og enn stærra mat lagt á þeirra störf á fjögurra ára fresti.
„Engar efasemdir hafa komið fram um hæfni mína sem skurðlækni í þessu mati og fylgikvillar aðgerða hafa verið taldir falla innan eðlilegra marka,“ segir í yfirlýsingu Auðuns.
Hann segir að tilfellin þrjú í Bretlandi hafi verið rannsökuð þar í landi og að einu þeirra hafi lokið með sátt og tryggingabótum og án athugasemda frá breskum heilbrigðisyfirvöldum.
Hann telur mikilvægt að reglum um persónuvernd verði breytt hér á landi þannig að íslenskir læknar geti sent upplýsingar um sín störf í stóra gagnagrunna erlendis, og nefnir sem dæmi Bretland og Norðurlöndin, til að tryggja eðlilegt gæðaeftirlit sem sé því miður ekki mögulegt með öðrum hætti í svo fámennu landi sem Ísland er.