„Þetta er alveg stál í stál, við erum algjörlega ósammála, félagið og samninganefnd ríkisins,“ sagði Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Hún sagði samninganefnd ríkisins enn fremur bjóða ljósmæðrum sama samning og samið var um við önnur félög BHM á dögunum.
„Við mátum það svo í Ljósmæðrafélaginu að þetta væri okkur ekki til hagsbóta, að þetta væri ekki góður samningur fyrir okkur. Þess vegna höfum við ekki getað fallist á hann.“
Sjá einnig: Stál í stál í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins
Eitt helsta baráttuefni Ljósmæðrafélagsins í kjaraviðræðunum er að búa svo um hnútana að ljósmæður lækki ekki í launum þegar þær bæta við sig tveggja ára menntun við hjúkrunarfræðina, líkt og raunin er hjá mjög mörgum þeirra í dag.
„Það er það sem er nefnilega alveg galið,” sagði Áslaug.

