Fótbolti

Stelpurnar okkar gista í Króatíu fyrir Slóveníuleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta.
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta. Vísir/Getty
Stelpurnar okkar verða fastagestir á landamærum Króatíu og Slóveníu í þessari viku því þær gista í öðru landi en þær spila.

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er komið saman en hópurinn komst loksins frá Íslandi í gær eftir veðurtengdar tafir.

Framundan eru tveir gríðarlega mikilvægir leikir hjá kvennalandsliðinu í undankeppni HM en næstu daga verður leikið gegn Slóveníu og Færeyjum.  

Ferðalag stelpnanna í gær gekk ágætlega þótt langt væri en þetta kemur fram í frétt á heimsíðu sambandsins.

Fyrri viðureignin verður gegn Slóveníu, föstudaginn 6. april. Leikið er í bænum Lendava en þar mættust þjóðirnar einnig árið 2015 í undankeppni EM.  

Þá hafði íslenska liðið betur, 0-6 en úrslitin urðu önnur þegar þjóðirnar mættust ytra í undankeppni EM árið 2007, þá höfðu heimakonur betur, 2-1.  Í fjórum viðureignum þjóðanna hjá A landsliðum kvenna er það eini sigur Slóveníu en Ísland hefur sigrað þrisvar sinnum.

Bærinn Lendava, er um tólf þúsund manna bær og hann er nálægt landamærum Slóveníu, Ungverjalands og Króatíu.

Íslenska landsliðið gistir ekki í Slóveníu í aðdraganda leiksins heldur gistir liðið á hóteli í Króatíu við góðar aðstæður. Stelpurnar fara því yfir landamærin á leið sinni á æfingar og í leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×