Eins og fram kom í fréttum okkar í gær stefnir í met í fjölda framboða fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í vor og gætu þau orðið að minnsta kosti fjórtán. Þá þarf minna fylgi nú en áður til að ná inn borgarfulltrúa, því borgarfulltrúum verður fjölgað úr fimmtán í tuttugu og þrjá.
Kosningabaráttan fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor er hafin í framhaldsskólum borgarinnar. Samhliða framboðskynningum fara fram skuggakosningar til borgarstjórnar í skólunum.
„Þetta er eiginlega æfing í því að taka þátt í lýðræðislegum kosningum. Við reynum að herma eftir því hvernig raunverulegar kosningar fara fram,“ segir Róbert Ferdinandsson kennari á félagsfræðibraut Fjölbrautaskólans við Ármúla.
Þannig sé til dæmis gefin út kjörskrá og frambjóðendur mæti í skólana til að kynna stefnumál sín og sitja fyrir svörum eins og í FÁ í morgun.

„Hún hefur verið svona svipuð, því miður eins og þekkist, í kringum 40 prósent. En aðalatriðið í okkar huga er að virkja sem flesta,“ segir Róbert.
Samkvæmt könnun sem Fréttablaðið birtir í dag myndu 45 prósent þeirra sem taka afstöðu vilja Dag B. Eggertsson áfram í stól borgarstjóra, 30 prósent Eyþór Arnalds en aðrir njóta eins stafs fylgis í embættið.
Ertu sáttur við það?
„Mér finnst þetta mjög góð byrjun. Að vera með 30 prósenta stuðning í þetta embætti. Langmestan stuðning fyrir utan sitjandi borgarstjóra sem hefur meiri stuðning eins og staðan er í dag,“ segir Eyþór.
Dagur er þakklátur fyrir stuðninginn.
„Reyndar tek ég þetta ekki bara til mín heldur í raun til alls meirihlutans. Því ég held að það hafi vakið athygli að við höfum unnið mjög vel saman sem einn maður. Fólk á því kannski ekki að venjast í pólitík og vill meira af því,“ segir Dagur B. Eggertsson.