Sport

Elskar Brady og var valinn á sama stað í nýliðavalinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Falk ætlar að slá í gegn í NFL-deildinni.
Falk ætlar að slá í gegn í NFL-deildinni. vísir/getty
Líf leikstjórnandans Luke Falk hefur lengi snúist um að gera allt eins og Tom Brady. Honum fannst því ekki leiðinlegt að hafa verið valinn númer 199 í nýliðavali NFL-deildarinnar eins og Brady.

Falk hefur aldrei farið leynt með aðdáun sína á Brady en hann gerir allt til þess að verða eins og átrúnaðargoðið sitt. Hann horfir stanslaust á myndbönd af Brady og reynir að læra af honum. Svo mikið dýrkar hann Brady að vinir hans gera látlaust grín að þessari ást hans á leikstjórnanda New England Patriots.

Hann hefur líka farið á sama mataræði og Brady er hann var í háskóla. Það gerði hann þó svo mataræðið hafi verið talsvert dýrara en hann réð við.

Falk hefur reynt að nota sama hugarfar og Brady sem menn höfðu takmarkaða trú á er hann var að koma inn í NFL-deildina.

Leikstjórnandinn ungi var reyndar ekki valinn af New England Patriots og fær því ekki að æfa með Brady. Hann var valinn af Tennessee Titans en þjálfarinn þar er fyrrum liðsfélagi Brady, Mike Vrabel, en sá vann þrjá titla með Brady. Falk ætti því að fá enn meiri upplýsingar um Brady hjá Vrabel.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×