Íslenski boltinn

Rúnar Kristinsson: Þetta gefur okkur sjálfstraust

Einar Sigurvinsson skrifar
Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson.
„Ég er ótrúlega ánægður og stoltur af strákunum að hafa komið til baka. Það var erfitt að spila gegn vindinum. Við stjórnuðum fyrri hálfleik og þeir stjórnuðu seinni hálfleiknum aðeins betur. En mér fannst þetta bara sanngjarn sigur, mér fannst við vera betra liðið heilt yfir,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sem var að vonum sáttur eftir 3-2 sigur sinna manna á Stjörnunni.

„Við vorum að spila fínan fótbolta, það var mikil barátta í liðinu og við gáfumst aldrei upp. Auðvitað er margt sem við getum lagað en gott að fá þrjú stig á Stjörnuvelli. Þetta gefur okkur smá sjálfstraust inn í næstu verkefni.“

KR-ingar fengu á sig tvö mörk í kvöld, rétt eins og í síðustu umferð gegn Val. Rúnar segir varnarleikurinn þó ekkert til að hafa áhyggjur af enn.

„Nei, fyrsta markið er bara klafs. Boltinn dettur bara fyrir þá eftir aukaspyrnu inn á teiginn. Þeir voru grimmari þar og ég var ósáttur við okkar varnarleik í því marki. En þetta er bara hörkulið sem við erum að spila við. Þú færð oft á þig mörk, það er alltaf eitthvað sem gerist.“

Bæði KR og Stjarnan stefna á að berjast á toppi deildarinnar í sumar og viðurkennir Rúnar að stigin þrjú gætu reynst dýrmæt.

„Hvert einasta stig skiptir máli og telur. Við misstum af einu í síðustu viku og núna fengum við þrjú. Eftir tvo leiki á erfiðum útvöllum með þrjú stig, við erum þokkalega sáttir. Þó svo að við séum aldrei sáttir með að tapa fótboltaleikjum. Núna erum við með einn sigur og eitt tap.“

„Núna er bara næsta verkefni eftir viku í Grindavík. Við þurfum að mæta þar jafn einbeittir og jafn góðir til þess að eiga möguleika. Þeir eru hörkugóðir,“ sagði Rúnar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×